Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 15:16:37 (3327)

1998-02-03 15:16:37# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[15:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að nokkurs misskilnings gæti í máli hv. þm. Egils Jónssonar. Ég held að hann hafi ekki alveg skilið það sem ég sagði áðan við hæstv. umhvrh. Ég gat þessi hvergi í máli mínu að ég teldi að bændur hefðu vegið sérstaklega að flórgoðanum með aðgerðum sínum. Ég taldi ekki að um hnitmiðað átak væri að ræða af þeirra hálfu. Hins vegar benti ég á að í skýrslu eða svari sem kom fram frá hæstv. umhvrh. og var dreift í fyrra, kom mjög glöggt fram að m.a. í kjördæmi hv. þm. Egils Jónssonar hefur flórgoðinn mjög látið undan síga. Ástæðan fyrir því er m.a. sú að mjög miklu af náttúrulegu votlendi hefur gegnum öldina verið breytt í ræktunarlönd. Það hafa bændur gert með tilstyrk skattborgaranna. Menn gerðu sér ekki grein fyrir þessu þá. Nú gera menn sér grein fyrir þessu og eru markvisst að reyna að endurheimta votlendið.

Ef hv. þm. telur að ég hafi farið með heimskulegt mál, eins og mátti ráða af ræðu hans, þá verður hann að beina sínum áherslum í þá veru til hæstv. umhvrh. Hvers vegna? Vegna þess að ráðherrann hefur lagt fram þetta frv. þar sem alls staðar er verið að tala um að haga þurfi þeim málum í samræmi við vistvænleika, í samræmi við sjálfbæra þróun. Það er bókstaflega tekið hér fram, herra forseti, að haga eigi jarðabótum þannig að tiltekin viðfangsefni, m.a þau sem lúta að friðun og vernd votlendis eigi að fá styrki. Þess vegna leyfði ég mér að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann væri ekki þeirrar skoðunar að styrkja ætti verkefni, eins og t.d. að endurheimta votlendin með því að moka ofan í skurði. Svar hæstv. ráðherra var jákvætt.

Mér finnst því að hv. þm. Egill Jónsson ætti nú líka að hella úr sínum koppum yfir hæstv. ráðherra fyrst hann kýs mig sem viðfangsefni þeirrar reiði.