Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 15:20:05 (3329)

1998-02-03 15:20:05# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[15:20]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Menn verða að meta það manni eins og mér, sem er lítt þingreyndur miðað við hinn langsjóaða hv. þm. Egil Jónsson, til vorkunnar þó að ég reyni nú að skjóta mér undan spjótalögum hans. Ég veit af sárri og beiskri reynslu hvernig hann er viðurskiptis þegar hann kemst í haminn og þess vegna reyni ég frekar að hafa hann sæmilega góðan í orðaskiptum okkar.

Hins vegar kom fram í máli hans það sem mér finnst vera orðinn leiður siður hjá hinum kjarkmikla hv. þm. að koma hingað og skamma Albaníu þegar hann á við Kína. Hv. þm. kemur hingað og skammar Alþfl. af því að hv. þm. brestur kjark til að segja hæstv. landbrh. til syndanna vegna þess að hinn kjarkmikli þingmaður Sjálfstfl. er núna lentur með myllustein Framsfl. um háls og hann rís ekki undir þeirri byrði. Hv. þm. kemur hingað og skammar Alþfl. fyrir frv. sem hann segir í öðru orðinu að sé handónýtt. En skammaði hv. þm. þann sem leggur frv. fram? Nei, hann gerði það ekki. Vegna þess að hann liggur hundflatur fyrir Framsfl. þegar landbúnaðarmálin eru annars vegar. Þetta veit hv. þm. og ætti ekki að koma hingað til að skammast yfir því lítilræði. Við vitum báðir að þetta er rétt. Framsfl. hefur algjörlega beygt hv. þm. í landbúnaðarmálunum.