Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 15:49:23 (3335)

1998-02-03 15:49:23# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[15:49]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Varðandi það í ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar er hann ræddi um styrkveitingar og annað þá held að ég hafi rætt um Nýja-Sjáland, það var a.m.k. hugsunin, en ekki Nýfundnaland, eins og hv. þm. sagði. Þó virðist mér ljóst væri að við áttum við sama landið. Hann nefndi að Noregur væri mjög háður styrkveitingum. Það er alveg rétt. Hann rakti það til landslags og annars þess háttar. Svo einfalt er það ekki. Hægt væri að taka sem dæmi lönd eins og Sviss og Kanada. Sviss hefur mjög mikla verndun en Kanada ekki. Það er ekki háð hinu náttúrulega umhverfi nema að hluta. Aðalþátturinn varðandi þetta er skipulagið sem einstaka þjóðir hafa valið sínum landbúnaði. Ég hef verið að reyna að draga það fram. Það hefur dregið mjög úr verndun íslensks landbúnaðar. Eins hefur að hluta dregið úr verndun gagnvart landbúnaði erlendis. Hér höfum við dregið meira úr verndun. Ég vil að það sé alveg ljóst. Við höfum staðið okkur betur en flestar aðrar þjóðir. Hins vegar erum við enn langt fyrir ofan meðaltalsstuðning annarra þjóða við landbúnað.

Ég hef borið fram spurninguna hverra hagsmuna sé verið að gæta með kerfi sem skilar bændum lágum launum og neytendum háu matarverði. Er verið að gæta hagsmuna milliliðanna? Er það framsóknarhyggjan þessara tveggja flokka?

Varðandi sauðfjárrækt sem hv. þm. nefndi geri ég mér fulla grein fyrir þeim vandamálum sem þar eru. Störfum í landbúnaði er að fækka og það víða eins og ég nefndi. Ég vil hins vegar að það gangi fyrir sig með reisn og virðingu gagnvart þeim sem stunda sauðfjárrækt og hafa ekki tök á aukastörfum. Sumir hafa það, aðrir ekki og þeir sem minnstar tekjur hafa af atvinnu sinni hérlendis eru sauðfjárbændur sem ekki hafa í önnur hús að venda. Það verður að styðja vel við bakið á þeim, einkum ef þeir vilja hverfa frá sínu starfi. Það er ekki hægt að horfa upp á fækkun starfa í landbúnaði með þeim afleiðingum að jarðir fari í eyði þegar ábúandi fer af jörðinni. Það er stefna mannsins með ljáinn sem ég kalla svo. Það er ekki samboðið virðingu okkar sem stjórnmálamanna að hafa slíka stefnu.