Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 15:56:44 (3338)

1998-02-03 15:56:44# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., GÁ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[15:56]

Guðni Ágústsson:

Hæstv. forseti. Hér fer fram víðáttumikil umræða um landbúnaðarmál undir umræðu um frv. til búnaðarlaga sem hæstv. landbrh. hefur lagt fram. Ég vil í upphafi fagna frv. enda tel ég málið mikilvægt. Eins og fleiri get ég sagt að auðvitað mun ég sem landbúnaðarnefndarmaður fá málið á mitt borð.

Hér hefur farið fram merkileg umræða. Alþýðuflokksmenn hafa blandað sér í umræðuna sem auðvitað er hið besta mál, en eigi að síður heyrir maður holhljóm eða falskan tón. Þessir menn ætla sér oft í gegnum þessa umræðu að slá tvær flugur, jafnvel þrjár í einu höggi. Jafnvel sá maður sem hefur sýnt það í verki að hann er vinur bænda og er þó í Alþýðuflokknum, hv. þm. Gísli S. Einarsson. Ég hélt nefnilega að tónninn væri að breytast í Alþfl. og að fleiri og fleiri alþýðuflokksmenn, eins og áðurnefndur hv. þm. skynjuðu að Alþfl. er í dag lítill flokkur vegna þess hvernig hann hefur talað um bændur og landbúnað. Vegna þess hvernig hann hefur í orði barist gegn þessum mikla atvinnuvegi. Sá maður sem sigldur er vestur um haf, Jón Baldvin Hannibalsson sendiherra, hygg ég að hafi áttað sig á því á sínum síðustu missirum sem þingmaður að Alþfl. væri ekki til í sumum kjördæmunum fremur en flórgoðinn. Ástæða þess er að hann rak þannig málflutning í þjóðfélaginu gegn þessari stétt. Þannig er staðan og í raun furðulegt að menn skuli ekki átta sig á því við breyttar aðstæður að svona eigi flokkur ekki að tala.

Hv. þm. Ágúst Einarsson, 11. þm. Reykn., talaði eins og Alþfl. hefði aldrei komist í ríkisstjórn á Íslandi. Alþfl. hefur öðrum flokkum fremur setið í ríkisstjórn. Hann sat allan viðreisnartímann, tók þátt og bar ábyrgð á landbúnaðarmálum á þeim tíma er útflutningsbætur voru teknar upp. Ég vil minna á að Alþfl. sat í ríkisstjórn allt síðasta kjörtímabil þegar málefni landbúnaðarins voru strand í fyrri ríkisstjórn. Engin lausn var fyrirsjáanleg þar sem Alþýðuflokkurinn vildi ekki bjóða bændum sömu kjör eða aðlögunartíma og stéttarbræður þeirra um víða veröld fengu með GATT-samningunum. Hann vildi hér allt aðra niðurstöðu.

[16:00]

Ég er því ekkert hissa á því sem hér var borið á hv. þm. Egil Jónsson, að hann lægi hundflatur undir framsóknarmönnum í þessari ríkisstjórn, og þessi hv. þm. sýndi þann myndarskap að svara ekki svona bulli heldur gerir sér auðvitað grein fyrir því að hann er ekki hundflatur undir Framsókn heldur hefur hann séð það gerast á þessu kjörtímabili og nást fram sem strand var á því fyrra vegna þess að Alþfl., í undarlegri herferð gegn íslenskum landbúnaði, stöðvaði þá mörg mikilvæg mál sem nú eru að fá framgang.

Ég minntist á GATT-málið. Það náðist fram og það tókst að gefa íslenskum bændum sömu starfsskilyrði og stéttarbræður þeirra um víða veröld hafa fengið til að aðlaga sig breyttum tímum. Ég nefni sauðfjársamninginn sem var tekinn upp og lagfærður og allir viðurkenna að þar er batnandi staða. Enda sjáum við nú, í Morgunblaðinu í dag, að um leið og greint er frá því að menn séu að ná árangri í fjárfestingu í hugbúnaði, er sagt frá því að íslenskar afurðir eru að ná þeim árangri í nálægum löndum að t.d. SS hefur ekki undan að selja lambakjöt í Danmörku á hærra verði en gerist hér. Slík er eftirspurnin. Svo er líka sagt frá því í Morgunblaðinu að hér sé kominn aðili sem bjóði bændum 10% hærra verð ef þeir vilji taka þátt í útflutningi á erlendan markað.

Ég get minnst á mjólkursamninginn sem er nýgerður nú og mun skipta sköpum fyrir bændur. Ég nefni Lánasjóð landbúnaðarins sem nú er kominn í höfn með nýjar reglur og mun taka þátt í þróun landbúnaðarins þannig að allt er þetta sem betur fer á réttri leið þó ég sé ekki að halda því fram að við séum komnir á neinn lokapunkt.

Við verðum þó að minnast þess að á þeim tímum þegar heimsbyggðin, og ekki síst unga fólkið, gerir kröfur um að fá lífræna og vistvæna vöru, er kannski staðan sú að íslenskur landbúnaður stendur fremstur meðal jafningja. Hann hefur meiri tækifæri þrátt fyrir hnattstöðu landsins en landbúnaður í mörgum öðrum löndum sem hefur siglt leið mengunar, offramleiðslu, stórbúa o.s.frv. þannig að þar blasir við ný staða. Og ekki er því að leyna að mesta spillingaraflið sem kannski er við að eiga er draumaland kratanna, Evrópusambandið, sem enn ver yfir 50% af tekjum sínum til þess að niðurgreiða landbúnað í Evrópu og halda uppi útflutningsbótum sem Íslendingar hafa lagt af fyrir sex eða sjö árum.

Ég vil lýsa því hér yfir að mér líkar vel að vinna með hv. þm. Ágústi Einarssyni í landbn. Hann hefur á margan hátt ágætar skoðanir og vinnur af samviskusemi. Þetta vil ég láta koma hér fram. Ég undra mig samt sem áður á þeirri breytingu sem oft verður á hv. þm. þegar hann stendur í ræðustól Alþingis. Þá er eins og komi í hann ókunnur andi frá öðru landi. Þá er eins og hann tali tungum og öðruvísi en hann gerir í nefndinni. Svo er það eitthvert sérstakt skammaryrði sem hv. þm. notar sem er framsóknarhyggja. (Gripið fram í.) Kannski er þetta kratabókin. En ég er viss um að hv. þm. mun vinna heilt með okkur að þessu frv. þegar í nefndina kemur og þar treysti ég honum ágætlega.

Ég vil svo segja um þetta mál að ég fagna því sem hæstv. landbrh. lýsti yfir, þ.e. að hann sagði hér frá samkomulagi sem landbrh. og fjmrh. hafa gert með sér um uppgjör á jarðræktarstyrkjum til bænda sem hafa því miður staðið föst í mörg ár og þar eru heilmiklar skuldir. Ég segi um það: Betri er hálfur skaði en allur, og fögnuður að þetta mál skuli í höfn um leið og menn ætla að setja viðbótarpeninga inn í nýja framtíð eins og hér var einnig greint frá.

Menn hafa eytt töluverðum tíma í að ræða friðun votlendis. Ég tek undir með mönnum að ef við stæðum í dag frammi fyrir ýmsu sem gert hefur verið í þessu landi mundum við gera það öðruvísi. Ég veit að bændur skynja þetta einnig og þar höfum við farið offari. Sannleikurinn er sá að við hljótum að styðja endurheimt votlendis og fuglalífsins, enda er fuglalífið ný auðlind sem Íslendingar eiga til að gera út á. Ég þekki dæmi um það í mínu kjördæmi. Ég get hins vegar tekið undir það með hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni að það er auðvitað landbúnaðinum mikilvægt að skilgreint sé hvað séu framlög til landbúnaðar og hvað eru framlög til endurheimtar landgæða. Þetta held ég að sé mjög mikilvægt. Og hvað fuglalífið varðar, af því að það hefur tekið svo stóran tíma í þessari umræðu, þá þurfum við mjög að hugsa um það sem hér hefur komið fram, að halda minknum í skefjum. Hann fer enn offari í íslenskri náttúru. Við þurfum líka að hugsa um mávana sem ganga mjög að mófuglinum og ég vil beina því til hæstv. umhvrh. að huga einnig að því. Maður sér það þegar tún eru slegin í uppsveitum Árnessýslu að þá eru þau um leið þakin mávi sem þar er að leita að æti og gengur hart að mófuglinum þannig að við þurfum að hugsa um fuglafriðun á nýjan hátt. Ég er því ekkert sár yfir því þó að mokað sé ofan í einhverja skurði.

Ég vil að lokum segja, um leið og ég sé að landbúnaðurinn er að styrkja sig innan lands, að staða bænda fer sem betur fer batnandi, við sjáum nýja möguleika og að þjóðin er tiltölulega sátt við sinn landbúnað og fleiri og fleiri Íslendingar, ungir og aldnir, skilja að landbúnaðurinn er undirstöðuatvinnuvegur, ekki síst í því að ná sókn í nýrri atvinnugrein sem hér er farin að skila yfir 20 milljörðum í þjóðarbúið, ferðaþjónustunni, að ef við leggjum landið í eyði höfum við ekki þessa möguleika til þess að nýta náttúru Íslands og selja hana ferðamönnum. Þar er því landbúnaðurinn nýr og mikilvægur hlekkur og víða verið að gera góða hluti. Auðvitað er staðan sú, og það eru mín síðustu orð, að um leið og mörg mál þjóðarinnar eru sem betur fer á réttri leið, greinum við það að sóknin er einnig að hefjast í sveitunum. Við gerum nýjar og mikilvægar kröfur til bænda okkar og skynjum að þeir standast það besta sem boðið er upp á í veröldinni. Þeirri sókn eigum við að fylgja eftir og það væri fögnuður ef allir stjórnmálaflokkar, einnig Alþfl., gætu tekið þátt í þeirri sókn með málefnalegri umræðu.