Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 16:13:25 (3341)

1998-02-03 16:13:25# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[16:13]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Við alþýðuflokksmenn höfum svo sem engar áhyggjur af því hvort við lifum eða deyjum í einhverjum einstökum kjördæmum. Um það verða kjósendur að dæma. Við leggjum hins vegar fram okkar stefnu og stöndum við hana og þegar við vitum að stefna okkar er rétt, þá skömmumst við okkar ekki fyrir hana. Þegar hv. þm. talar um að hér sé um æsing og rógburð að ræða, þá er það fyrir neðan virðingu þingmannsins. Hann gat hlutað á mig áðan þegar ég ræddi landbúnaðarmálin og sagði að eitt það versta sem hefði komið fyrir íslenskan landbúnað væri að hann fékk ekki sambærileg skilyrði og aðrir atvinnuvegir hérlendis hvort sem það er sjávarútvegur, verslun, iðnaður eða þjónusta. Hann fékk það ekki vegna forsjárhyggju Framsfl. og Sjálfstfl. sem ég geri ekki greinarmun á í þessu efni.

GATT, sem hann nefndi í ræðunni, þýddi nær engar breytingar hér á landi. GATT var tækifæri til uppstokkunar sem hefði þýtt bætt kjör bænda og betri kjör neytenda. Þessi tækifæri voru ekki nýtt. Það eina sem þessi hv. þm. stendur vörð um er ónýtt kerfi. Ég átta mig ekki á því hvort þetta er milliliða- eða hagsmunagæsla. En það er algjörlega ljóst að hann er ekki að tala hér fyrir hagsmunum neytenda og ekki hagsmunum bænda. Þegar hagsmunum bænda er þannig komið eftir hagsmunagæslu Framsfl. að þeir eru tekjulægsti hópur á Íslandi og neytendur hér eru að borga hæsta matarverð í Evrópu, þá er eitthvað að. Þá eru þessir flokkar að gæta einhverra annarra hagsmuna. Alþfl. hefur býsna lengi lagt fram farsæla stefnu í landbúnaðarmálum en þar hafa varðhundar kerfisins, og þar með talinn hv. þm. Guðni Ágústsson, verið mjög vel á verði og ekki er enn þá komin glufa í þann varnarmúr. En kannski það verði í næstu kosningum.