Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 16:17:47 (3343)

1998-02-03 16:17:47# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[16:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Í umræðunum um frv. til nýrra búnaðarlaga ætla ég aðallega að ræða eitt tiltekið efnisatriði frv. Ég ætla með öðrum orðum ekki að fara út í miklar umræður um stöðu flórgoðans eða framkvæmd GATT-samningsins og þaðan af síður ætla ég að hætta mér út í samanburð á því hvort kunni að vera í meiri útrýmingarhættu í landinu flórgoðinn eða Alþfl. en allt hefur þetta borið á góma hér eins og kunnugt er.

Ég tel út af fyrir sig eðlilegt að sameina þau lög sem hér eru undir í einn búnaðarlagabálk eins og lagt er til með því að sameina ákvæði búfjárræktarlaga, jarðræktarlaga og hvort það eru einhver ein lög enn sem þarna hverfa undir, lög um búfjárrækt, í eina búnaðarlöggjöf. Það held ég að sé í sjálfu sér ágæt tiltekt í lagasafninu og einfaldi ýmislegt í leiðinni eins og mér sýnist vera gert án þess að ég hafi borið þetta nákvæmlega saman við gildandi lög, svo ég geri nú þá játningu hér, enda kemur það í hlut góðra manna í landbn. að fara nákvæmar yfir þetta.

Það sem ég ætlaði fyrst og fremst að ræða er ákvæði til bráðabirgða í frv. og það mál sem það varðar, þ.e. uppgjör, ef uppgjör skyldi kalla, á þeim skuldahala sem tók því miður að myndast á nýjan leik frá árinu 1992 vegna jarðræktarstyrkja eða styrkja til ýmissa framkvæmda á bújörðum. Ég hef áður gagnrýnt það á þingi, bæði á síðasta kjörtímabili og þessu, hvernig þarna hefur til tekist. Svo ég rifji aðeins upp forsöguna, herra forseti, þá var það þannig við þau tímamót að stjórnarskipti urðu á árinu 1988 og kom upp úr kafinu þegar farið var að fara yfir stöðu þessara mála að gríðarlegur skuldahali hafði myndast vegna vangoldinna jarðræktarframlaga sem bændur áttu tvímælalausan og sjálfkrafa rétt á út á þær framkvæmdir sem þeir höfðu ráðist í. Þá var fyrirkomulagið þannig, og menn geta sagt að það hafi verið barn síns tíma eins og margt annað, að bændur þurftu ekki að sækja fyrir fram um slíkan stuðning heldur var hann sjálfvirkt veittur ef framkvæmdirnar höfðu staðist úttekt að þeim loknum. Hins vegar hafði ríkisvaldið ekki veitt nægjanlegt fé til að gera upp við bændur vegna framkvæmdanna og skuldahali hafði myndast sem var yfir hálfur milljarður kr. á þágildandi verðlagi þegar gerð var úttekt á stöðunni á árinu 1988, í árslok það ár eða á árinu 1989. Svo geta menn leikið sér við að slá á þá tölu eins og hún stæði í dag.

Þetta var ekki skemmtileg aðkoma, herra forseti, og það kostaði gríðarlegt átak að ná fram þeirri pólitísku niðurstöðu að gera hvort tveggja í senn, breyta lagaákvæðunum þannig að styrkveitingarnar væru ekki lengur sjálfvirkar og fá fjárveitingar eða samning um uppgjör á þessum gríðarlega skuldahala sem mundi sjálfsagt nálgast það að vera einn milljarður kr. á núgildandi verðlagi. Ég minnist þess alveg sérstaklega, af því að hv. þm. Egill Jónsson kom í ræðustól einu sinni sem oftar til að ræða um þessi mál, að þá stóð ekki á gagnrýni hjá hv. þm. yfir því hversu linlega væri að málum staðið. Þá hafði hv. þm. verið stuðningsmaður ríkisstjórna sem höfðu safnað upp skuldahalanum. Það er svo furðulegt með hv. þm. Egil Jónsson, sem leggur gjarnan leið sína hingað til að gagnrýna frammistöðu manna, að hann situr uppi með það í sögulegu samhengi séð að hafa stutt allar þær ríkisstjórnir sem hafa látið þessa skuldahala myndast en ekki stutt þá einu ríkisstjórn sem tók til í kerfinu en það var ríkisstjórnin sem sat að völdum á árunum 1988--1991. Það var gert með því að stemma stigu við sjálfvirkum útgjöldum að þessu leyti og það tókst að minnsta kosti að verulegu leyti eins og sjá má á því hversu gríðarlega dró úr skuldbindingum ríkisins í kjölfar lagabreytinga á árinu 1989 eða 1990.

Menn höfðu þá trú að búið væri að koma skikk á þessi mál og eftir að lagabreytingin var gerð og uppgjörinu við bændur lauk með skuldabréfum á árunum 1991--1992 væri búið að taka til í kerfinu og eftir það yrði þessum málum haldið í skilum en svo hefur því miður ekki reynst. Nákvæmlega sama sagan hefur endurtekið sig. Að vísu bera menn við einhverri réttaróvissu um það hvort ríkið sé örugglega skuldbundið til að greiða styrki út á framkvæmdir sem sótt hefur verið um eða ekki. Það er í sjálfu sér ekki mergurinn málsins í mínum huga heldur hitt að þarna hefur myndast skuldahali sem margt bendir til að bændur gætu sótt á grundvelli laga fyrir dómi ef ekki vildi betur til. Í öllu falli er alveg ljóst að lögin gera ráð fyrir því að framkvæmdirnar séu styrkhæfar í takt við það að Alþingi leggi fé til þess að greiða styrkinn. Það er í öllu falli alveg ljóst.

Þá er ég kominn að því sem er niðurstaðan í frv. að lögð er til sú skipan mála að bændum verði gerðir þeir kostir, ef ég get lesið þetta rétt, að þiggja um helming af því sem þeir telja sig eiga inni í stuðning gegn því að afsala sér kröfu á frekari styrkjum. Með öðrum orðum, verið er að bjóða bændum þá kosti, og einhverjir hefðu sagt afarkosti, að þiggja helminginn, svo maður sletti á enskri tungu ,,take it or leave it`` bændur góðir. Fáið þið helminginn og fallið þið frá kröfu um hitt, eða þá hvað? Eða ekki neitt? Eru það ekki kjörin sem er verið að bjóða?

Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta leiðinlegur endir á málinu. Staðreyndin er sú að upphæðirnar sem eru á ferðinni eru þrátt fyrir allt ekki hærri en það, og svo miklu lægri en sá vandi sem var tekist á við á árunum 1989--1991, að það hefði ekki átt að vera ofverk ríkisvaldsins í miðju góðærinu að klára þetta mál gagnvart bændum með því að gera þetta upp, þessar kannski 300 milljónir sem eru komnar.

Nú hefur verið ákveðið af hæstv. ríkisstjórn að veita í verkefnið 150 millj. kr. og dreifa þeim ósköpum á þrjú ár, ekki ræður nú ríkissjóður við þetta nema fá að borga þetta á þremur árum, þessi gríðarinnar ósköp, 150 milljónir, upp í uppsöfnuð ógreidd framlög sem samkvæmt töflu á bls. 18 eru upp á 272 milljónir og síðan hefur hæstv. landbrh. góðfúslega bent mér á að þar muni eitthvað hafa bæst við og kannski hefur það komið fram í framsögu, að upphæðin sé trúlega um eða yfir 300 millj. kr.

Ég skora á hv. landbn. að fara rækilega yfir málið og það má hv. þm. Ágúst Einarsson bændavinur heyra líka, að hæstv. landbn. manni sig þá upp í það að fara rækilega yfir málið, fara ofan í saumana á því, fara yfir lögfræðilegu hliðina á því og skoða það hvort að nauðungartilboð af þessu tagi séu sæmandi, að bændur taki annaðhvort uppgjöri að hálfu og falli frá kröfu um afganginn eða fái ekki neitt. Og þá á þingið að taka þetta mál í sínar hendur og breyta þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur tekið og sjá þá til þess að á fjárlögum eða fjáraukalögum verði fjármunir til að gera þetta mál sómasamlega upp við bændur þannig að þessari leiðindasögu ljúki. Ég trúi því ekki að menn þurfi að láta einhverjar 150 millj. kr. standa þannig í sér í þessum efnum að ekki sé hægt að ljúka þessu á forsvaranlegan hátt.

Hitt er svo allt annað mál að taka pólitískar ákvarðanir og lögfesta þær afdráttarlaust um framhaldið. Ég er og hef lengi verið þeirrar skoðunar að það eigi að taka fyrir einhvers konar sjálfvirkni og hvers konar sjálfvirkni í þessum efnum og það eigi að vera háð stefnumótun og pólitískum ákvörðunum á hverjum tíma hvort og þá hvernig menn styðja einhverja einstaka framkvæmdaflokka. Fyrir því geta verið rök en þá þurfa menn að vanda öll vinnubrögð í því sambandi eins og m.a. utandagskrárumræða um annað skylt atriði fyrr í dag minnti menn á að væri nauðsynlegt að gera.

Ég trúi því að ekki muni skorta atbeina hv. þm. Egils Jónssonar til þess að gera betur og myndarlegar en honum fannst lagt til í frv. Honum er málið skylt sem hefur stutt allar þær ríkisstjórnir sem hafa látið skuldahalann myndast, bæði á síðasta áratug og aftur á þessum áratug en það er í tíð tveggja ríkisstjórna Sjálfstfl. og meira að segja að mestu leyti í tíð landbrh. Sjálfstfl., hæstv. ráðherra Halldórs Blöndals sem halinn myndaðist. Það var hlutskipti hæstv. núv. landbrh., eins og sumra forvera hans, að fá í arf heldur lélegt bú að þessu leyti. Það nýtur vonandi stuðnings góðra manna að taka á þessu atriði málsins, sem er í raun og veru fylgifiskur, er ekki aðalatriði frv., sem felur í sér að öðru leyti sameiningu búfjárræktarlaga og jarðræktarlaga í einn búnaðarlagabálk.

Hér hefur ýmislegt spekingslegt verið sagt um stöðu íslensks landbúnaðar, bæði í fortíð, nútíð og framtíð og horfur og allt það, og hefði svo sem verið gaman að blanda sér lítillega í þá umræðu. Þeir sem hafa áhuga á sagnfræði og vilja standa í skylmingum og ræða ábyrgð einstakra flokka, þar með talið Alþfl. á viðreisnarstjórnarárunum, mega mín vegna skemmta sér við það. Fyrir mér er það að mestu leyti að verða sagnfræði og hitt skiptir meira máli, staðan sem við stöndum frammi fyrir í dag og framtíðarhorfurnar. Íslenskur landbúnaður hefur gengið í gegnum gríðarlega erfiðleika, satt best að segja er aðdáunarvert hversu mikil seigla hefur reynst í greininni, ef svo má að orði komast, og þeim sem við hana starfa gagnvart þeim miklu erfiðleikum sem greinin er búin að ganga í gegnum, t.d. því gríðarlega tekjutapi sem fólk í sveitum hefur orðið að taka á sig á þessum þrengingartímum. Það að ekki skuli hafa orðið í miklu meira hrun í landbúnaðinum og búsetunni í sveitunum en raun ber vitni er aðdáunarvert í sjálfu sér. Við bindum vonir við það og það geri ég meðal annarra að landbúnaðurinn sé að verða kominn í gegnum það versta. Sem betur fer eru loksins á síðustu einu til þremur árum vissar vísbendingar um að svo sé. Ég tel ekki nokkurn vafa leika á því að t.d. eru heldur betri horfur í kjötframleiðslugreinunum og þá ekki síst í sauðfjárræktinni og var mál til komið eftir það langa samdráttar- og erfiðleikaskeið sem sú grein hefur gengið í gegnum.

[16:30]

Það hefur heldur verið þyngra fyrir fæti í mjólkurframleiðslunni síðustu missirin. Þó er nýbúið að gera samning sem treystir verulega starfsgrundvöll greinarinnar til næstu ára litið. Mín skoðun er sú að sambærilegan samning þurfi að gera sem allra fyrst í sauðfjárræktinni þannig að í þeirri grein einnig viti menn að hverju þeir ganga hvað starfsumgjörðina snertir næstu árin. Ég held að ástæða sé til að minna á að engin ein grein, enginn einn fjárlagaliður í fjárlögum íslenska ríkisins undanfarin ár, hefur lagt neitt í líkingu við það af mörkum til sparnaðar og minni ríkisútgjalda en einmitt landbúnaðurinn. En á stuttu árabili í kjölfar búvörusamningsins 1991 lækkuðu bein framlög á fjárlögum til landbúnaðarins úr um 10--11 milljörðum kr. og niður undir 5 milljarða og geri aðrir betur.

Menn skulu einnig hafa í huga hina hliðina á því máli, sem eru gríðarlegir erfiðleikar og tekjufall í atvinnugreininni og þeim byggðarlögum sem mest byggja á henni. Ísland hefur fyrir vikið fært sig verulega til í litrófinu ef við lítum á þau lönd þar sem mestum fjármunum er varið til styrktar matvælaframleiðslu. Úr 1.--2. sæti sem við skipuðum nokkuð reglulega á árunum fyrir 1990 niður í líklega 5.--6. sæti um þessar mundir, þar sem lönd eins og Noregur, Japan og fleiri eru komin óumdeilanlega upp fyrir okkur, og það verulega. Vegna þess að við höfum verið að draga úr þeim stuðningi og náð miklum árangri í hagræðingu í greininni á sama tíma og minna hefur kannski gerst í þeim löndum. Og jafnvel er ekki pólitískur þrýstingur á að það sé gert vegna þess að í löndum eins og Noregi, Sviss og Japan er víðtæk pólitísk samstaða um að viðhalda t.d. smábúskap til fjalla og fleira því um líkt. Hér er þó verið að þróa landbúnaðinn á fullri ferð yfir í stærri einingar og hagkvæmari rekstur. Um það eru ekki allir sammála og því fylgir mikill sársauki. Ég er ekki í nokkrum vafa um að umtalsverð hagræðing á sér stað í greininni sem er að skila sér bæði í lægra vöruverði og fyrst og fremst þó í mun minni ríkisútgjöldum til greinarinnar, en því miður ekki enn þá í nægjanlega ríkum mæli í betri kjörum þeirra sem starfa í landbúnaðinum. Og það hlýtur að vera eitt meginmarkmiðið á komandi árum, að þróunin skili fyrst og fremst breytingum á þá hlið að kjör þeirra sem starfa í landbúnaði batni á nýjan leik. Það er úrslitaatriðið að mínu mati ef menn eiga að eygja hér einhverja framtíð fyrir greinina og einhver von á að vera til þess að eðlileg nýliðun geti orðið í landbúnaði á Íslandi, þá verða kjörin að batna á nýjan leik og meðaltekjur t.d. sauðfjárbænda að hækka.

Þetta ætla ég að láta nægja, herra forseti, af minni hálfu sem almenna hugleiðingu inn í umræðuna um stöðu landbúnaðarins. Ég endurtek það sem ég sagði fyrr og var aðaltilefni mitt í þennan ræðustól, að skora á landbn. og þingið að fara vel yfir þetta mál hvað varðar ákvæði til bráðabirgða um uppgjör á ógreiddum jarðræktarstyrkjum eða framlögum vegna skulda frá árunum 1992 til og með síðasta árs, eða a.m.k. þar síðasta, og gera þennan hlut eftir því sem hægt er úr þessu sómasamlegan og skammlausan.