Búnaðarlög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 16:52:05 (3346)

1998-02-03 16:52:05# 122. lþ. 57.3 fundur 368. mál: #A búnaðarlög# frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[16:52]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins örstutt vegna þess að það er rétt sem kemur fram hjá hv. þm. að það kemur auðvitað fjölmargt fleira fram í þessari umræðu sem ástæða hefði verið til að fjalla aðeins nánar um. En það fór svo að ég féll á tíma að þessu sinni eins og stundum vill nú verða. Ég fékk á mig rauða ljósið. Ég hafði einmitt nóterað hjá mér athugasemdir hv. þm. um fjárreiðulögin að og samræmis þyrfti að gæta þar á milli og að sjálfsögu er ég honum algerlega sammála um það og hv. þm. öðrum sem hafa komið inn á þennan þátt. Að þessu þarf að huga. Það gerir nefndin væntanlega og eins og ég hef áður sagt í sambandi við nefndarstörf í hv. Alþingi, þá finnst mér sjálfsagt og eðlilegt og nauðsynlegt að nefndir fari vel yfir málin. Ég vil þá líka bjóða það fram að ráðuneytið og embættismenn þess sem hafa komið að málatilbúnaðinum eða undirbúningnum vinni með nefndinni eða nefndin leiti til þeirra um upplýsingar og athugasemdir þannig við getum átt sem best samstarf um það hvernig úrvinnsla þessa frv. eins og annarra fer fram og fer í gegnum þing.

Það var eitthvert annað atriði í andsvari hv. þm. sem ég ætlaði líka að nefna, en það hefur hrokkið úr huga mér enda tíminn liðinn svo ég læt það duga sem hér hafði áður komið fram af athugasemdum. En því er til skila haldið hér í umræðunni sem ekki hefur verið gerð grein fyrir. Hafi það verið einhverjar spurningar sem til mín var beint og ég hef ekki náð að svara, þá mun nefndin auðvitað taka það til frekari skoðunar.