Aðlögun að lífrænum landbúnaði

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 17:06:14 (3350)

1998-02-03 17:06:14# 122. lþ. 57.4 fundur 195. mál: #A aðlögun að lífrænum landbúnaði# þál., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[17:06]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að leggja orð í belg um þessa till. til þál. þar sem hreyft er máli sem ég tel að geti skipt miklu fyrir íslenskan landbúnað og að hann aðlagi sig að búskaparháttum sem gætu fallið undir lífræna ræktun. Ég held þó að það verði seint svo að við getum haft allan okkar landbúnað undir þessum merkjum þó kannski sé hann, a.m.k. verulegur hluti hans, ekki langt frá því að geta kallast vistvænn eða vistrænn. Til þess að fá lífræna vottun samkvæmt alþjóðlegum stöðlum þarf meira til og landshagir okkar og náttúra takmarka auðvitað nokkuð í þessu efni. Þó er sjálfsagt og nauðsynlegt að skoða þennan möguleika vel og vandlega og ef það getur orðið til þess að fjölga tækifærum og skapa ný tækifæri til sóknar í íslenskum landbúnaði, þá ber að gera svo.

Nú þegar hafa menn kynnst lífrænni ræktun nokkuð t.d. á vegum átaksverkefnisins sem gengur undir heitinu Áform. Í það hefur verið varið allnokkrum fjármunum á undanförnum árum til að vinna að nokkrum verkefnum þessu tengdum. Búnaðarþing hefur einnig fjallað um þessi mál og Bændasamtökin vilja fylgja því eftir.

Mig langar aðeins að gera grein fyrir því, í tengslum við þessa tillögu, að fyrir rúmu ári síðan, 15. janúar 1997, skipaði ég starfshóp til að vinna að framgangi og kynningu á stefnumörkun sem gengið hefur undir heitinu Vistrænt Ísland. Það er í framhaldi af þeirri vinnu sem ég nefndi, á vegum Bændasamtakanna, ráðuneytisins, Áforms og í framhaldi af ályktunum búnaðarþings að undanförnu, þó sérstaklega ályktunum sem búnaðarþing samþykkti árið 1996. Nefndarstarfið er langt komið. Þar eru komnar ýmsar hugmyndir um hvað þurfi að gerast í íslenskum landbúnaði til þess að hægt sé að framfylgja stefnumörkun þeirri sem hér er sett fram um nauðsynlegar úrbætur á ýmsum sviðum og síðan hefur hópurinn sett niður tillögur um hvað gera þurfi.

Þar sem nefndarálit er ekki frágengið, ég er hér að vísu með drög að því dagsett 3. febrúar þannig að þetta þetta starf er vel á veg komið, þá held ég að það sé ekki rétt að ég sé að vitna beint í það. Auðvitað er sjálfsagt og eðlilegt að landbn. leiti til ráðuneytisins og þeirra sem þennan starfshóp hafa skipað þegar hún fjallar um þessa tillögu. Í starfshópnum sitja Hákon Sigurgrímsson, deildarstjóri í landbrn., sem er formaður hans og Ingimar Sigurðsson, skrifstofustjóri í umhvrn., þannig að það eru góð tengsl á milli ráðuneytanna tveggja um þetta markmið. Vissulega tengist það líka umhverfismálum ef við færum og okkur meira inn á framleiðslu undir þessum formerkjum. Auk tveggja fyrrnefndra eru Haukur Halldórsson bóndi, tilnefndur af stjórn Áforms, og Kjartan Ólafsson ráðunautur, tilnefndur af Bændasamtökunum. Með þessum hópi hafa síðan starfað Álfhildur Ólafsdóttir, forstöðumaður upplýsingaþjónustu landbúnaðarins, og Baldvin Jónsson, verkefnisstjóri hjá átaksverkefninu Áformi. Á þessu sviði hefur því verið margt verið unnið og merkilegt. Ég lýsi því þeirri skoðun minni að mikilvægt sé fyrir landbúnaðinn að reyna að þróa sig á þessu sviði og sjálfsagt og eðlilegt að landbn. fjalli ítarlega um þetta mál.