Aðlögun að lífrænum landbúnaði

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 17:10:31 (3351)

1998-02-03 17:10:31# 122. lþ. 57.4 fundur 195. mál: #A aðlögun að lífrænum landbúnaði# þál., HG
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[17:10]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir að leggja orð í belg og upplýsa um það sem verið er að vinna að á vegum landbrn. og tengist þessu. Ég er sammála hæstv. ráðherra um að seint verði allur landbúnaður á Íslandi talinn lífrænn. Jafnmikilvægt er þó að skjóta fótum undir þennan þátt þannig að hann verði gildur þáttur í landbúnaði á Íslandi og vaxandi eftir því sem ár líða og markaðsaðstæður og kröfur neytenda og viðhorf til framleiðslu matvæla breytast. Ég tel að meðferð málsins í landbn. og stuðningur Alþingis við málið geti hjálpað framkvæmdarvaldinu til að þoka þessum málum áfram af skilvirkni. Ég vænti að ég megi skilja orð hæstv. ráðherra þannig að hann vilji sjá landbn. veita málinu verðuga meðferð og málið afgreitt af hálfu þingsins.