Framleiðsla íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 17:36:49 (3356)

1998-02-03 17:36:49# 122. lþ. 57.5 fundur 197. mál: #A framleiðsla íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar# þál., Flm. GE
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[17:36]

Flm. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka umræður og viðbrögð hæstv. ráðherra Guðmundar Bjarnasonar og hv. þm. og meðflutningsmanns, Ísólfs Gylfa Pálmasonar og einnig hv. formanns landbn. Guðna Ágústssonar, varðandi framsetningu og afgreiðslu þessa máls sem til umræðu er. Þar hafa menn lýst því yfir að þeir vilji leggja hönd á plóginn um framgang þessara mála.

Ég vil aðeins nefna vegna þeirra orða sem féllu í tilefni umræðunnar sem átti sér stað um búnaðarlög og fór fram hér áðan, að ég tel að þeir sem þar töluðu margir hafi gert sig seka um að fara út í fornháttaruppgröft og þar átti hv. þm. Guðni Ágústsson ekki síður hlut að máli.

Herra forseti. Ég ítreka nauðsyn á því að koma á vottun allrar íslenskrar matarframleiðslu frá haga í maga, ef þannig mætti að orði komast, hvað varðar landbúnað og frá miðum og í maga þegar rætt er um sjávarfang.

Ég vil að lokum þakka meðflutningsmönnum mínum að þessu máli góð ráð og ábendingar við vinnslu tillögunnar um framleiðslu íslenskra matvæla á forsendum sjálfbærrar þróunar. Ég vil einnig þakka það, herra forseti, að tillögur þær sem ég hef flutt um fráveitumál og mengunarmál hafa hlotið framgang hjá hæstv. núv. og fyrrv. umhverfisráðherrum. Það er mikið mál og ég sé ástæðu til þess að fagna því og þakka fyrir það.

Ég mælist svo aftur til þess að málið hljóti þá afgreiðslu sem hér hefur verið rætt um, herra forseti.