Jarðalög

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 17:46:02 (3358)

1998-02-03 17:46:02# 122. lþ. 57.6 fundur 198. mál: #A jarðalög# (kaup og sala jarða o.fl.) frv., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[17:46]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Aðeins örstutt innlegg af minni hálfu varðandi umræðu um frv. um breytingu á jarðalögum, sem hv. þm. Sighvatur Björgvinsson mælir fyrir.

Ég er algerlega sammála hv. þm. um það sem kom fram í máli hans sem rökstuðningur fyrir þeim breytingum að tímabært sé orðið að endurskoða ýmsa þætti í þeirri löggjöf. Jarðalögin eru sett, eins og hv. þm. nefndi, við allt aðrar aðstæður en nú ríkja í landbúnaði. Ég hef fundið og rekið mig á það í nokkrum tilvikum þann tíma sem ég hef setið í landbrn., að þar er ýmislegt barn síns tíma, ef orða má svo, og taka þarf á með öðrum hætti en lögin gera ráð fyrir. Ég hef þess vegna ákveðið að setja heildarendurskoðun í gang á þeim lögum, og einnig um Jarðasjóð og jarðeignir ríkisins þannig að allt sé tekið undir. Ég játa að ég hef ekki lesið þetta frv. í smáatriðum, en vafalaust er hér bent á fjölmarga þætti sem mundu koma fram við slíka heildarendurskoðun.

Ég ætla aðeins að segja að ráðuneytið hefur alla jafna reynt, og ég hygg að svo sé þó sjálfsagt megi finna aðra afgreiðslu mála í einstökum tilvikum, að samþykkja fljótt og vel breytingar sem óskað er eftir þegar bændur vilja leysa ákveðna hluta jarða sinna undan hefðbundnum landbúnaðarnotum og setja þá t.d. undir sumarbústaðalönd eða annað slíkt. Þetta er bara eins og þróun tímans gefur í skyn og leiðir af sér. Við vitum líka um stóraukinn áhuga bæði hjá bændum og fjölmörgum þéttbýlisbúum að fá land til uppgræðslu hvort heldur til landgræðslu eða skógræktar, og auðvelda þarf aðgang að slíku landrými. Byggingar- og skipulagslög sem voru samþykkt á seinasta þingi voru með nokkuð ströngum ákvæðum um framkvæmdaleyfi fyrir ýmsum slíkum verkefnum og tekið var á því að nokkru við breytingu á þeim lögum áður en þing fór í jólahlé. Það mál er í frekari skoðun í reglugerð þannig að huga þarf að því að það sé heldur ekki takmarkandi á þau verkefni sem vilji er til að vinna og allir eru sammála um að nauðsynlegt sé að vinna þó að leikreglum sé auðvitað fylgt eins og um náttúruvernd, mat á umhverfisáhrifum og gætt sé að öðrum slíkum þáttum á eðlilegan hátt.

Ég vil aðeins segja, hæstv. forseti, að tímabært er að hefja endurskoðun á þessari löggjöf og það hef ég ákveðið að gera í ljósi ýmissa atburða á undanförnum vikum og mánuðum og hér er vafalaust hreyft einhverju af því sem þar þarf að taka á.