Efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 18:11:39 (3362)

1998-02-03 18:11:39# 122. lþ. 57.7 fundur 266. mál: #A efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum# þál., Flm. EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[18:11]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að auðvitað þarf að leita mjög margra leiða til að styrkja byggðina en á jaðarsvæðunum er sauðfjárræktin grunneiningin. Hún er grunneiningin og ef grunnurinn er ekki til staðar, styrkjum við ekki neitt. Ef sauðfjárbændur gefast upp í starfi sínu er ekkert að styrkja. Hins vegar vil ég segja um útflutning á landbúnaðarafurðum, sauðfjárafurðum, að það hefur ekki verið reynt áður. Það er rangt. Ég fór yfir það í ræðu minni að þær tilraunir voru dæmdar til að mistakast. Ríkið sá um það, fól einum aðila að selja, hann fékk sölulaun og ég ætla ekki að rekja það neitt. Þessi vara var gefin í stórum stíl. Þetta var selt í heilum skrokkum. Þetta var einmitt aðferðin sem á ekki að nota. Það eru aðeins tvö, þrjú ár síðan menn fóru að stunda útflutning á lambakjöti, síðan bændur, framleiðendur, fóru að stunda þennan útflutning. Ég fullyrði, herra forseti, að árangur þessara aðila er stórkostlegur miðað við það hvernig við stóðum að þessu áður. Ég hef aldrei sagt og mun aldrei segja að það verði auðvelt. Ég er alveg viss um að það verður erfitt eins og öll markaðssetning á allri vöru. Ekki munu allir dagar verða sigurdagar heldur munu verða þar mikil vonbrigði á milli eins og gengur. En það er í því ákveðin mikil von að þetta eigi að vera hægt og við skulum ótrauðir styðja framleiðendurna til að reyna þetta og leggja sig alla fram því það skiptir öllu máli að framleiðendurnir sjálfir standi að þessum hlutum.