Efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 18:15:47 (3364)

1998-02-03 18:15:47# 122. lþ. 57.7 fundur 266. mál: #A efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum# þál., Flm. EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[18:15]

Flm. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tók það fram í framsöguræðu minni að mér væri fullkunnugt um að í þessum málum gilti þumalputtareglan, eins og hjá öllum öðrum framleiðendum, að eflaust væri a.m.k. helmingi erfiðara að selja en framleiða. Kannski er það miklu meira. Ég vil hins vegar benda á að á örskotsstund, tveim, þrem árum hefur þó tekist að skila í útflutningi 180 kr. á kg nettó fyrir bóndann.

Ég vil benda á, eins og ég sagði í framsöguræðu minni, að víða eru fjárfestingarnar ónýttar, beitarlöndin, þekkingin, útihúsin, ræktaða landið o.s.frv. Það er því um það að ræða að mjög fátækt fólk með mjög tekjulág bú, að jaðaráhrifin, þ.e. ef það getur bætt tekjur sínar getur það haft umtalsverð áhrif og úrslitaáhrif á hvort menn lifa af þessa miklu þrengingartíma eða ekki. Þess vegna er þessi tillaga flutt til að reyna að koma til móts við þá og til að hjálpa til við að mönnum takist að lifa þetta af.