Efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 18:32:20 (3367)

1998-02-03 18:32:20# 122. lþ. 57.7 fundur 266. mál: #A efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum# þál., EgJ
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[18:32]

Egill Jónsson:

Virðulegi forseti. Ég verð rétt að segja það eins og er að þessi umræða er býsna ólík því sem hún hefur verið núna um árabil og ber önnur merki með sér heldur en hefur komið fram í ýmsum áherslum, m.a. þeim samningum sem gerðir hafa verið. Það er ekki ætlan mín að vekja upp þá umræðu en kannski má minna á að þegar samið var um þessi mál árið 1991, þá var í rauninni bannað að flytja út dilkakjöt og þegar búvörusamningurinn kom endurskoðaður inn í þingið árið 1995, þá var enn þá þetta harða fyrirkomulag á útflutningsmálum í sauðfjárræktinni að deila öllu upp jafnt sem hefði að sjálfsögðu falið það í sér að engin viðleitni hefði verið til þess að flytja út þessa afurð og allra síst að leita þar að traustum mörkuðum.

Ég tek undir það sem kom fram í vandaðri ræðu hv. frsm., að í þessum efnum hafa málefni mjög skipast með öðrum hætti. Þeir aðilar, sem einkum eru þrír, sem flytja á erlenda markaði allt saman í smáum stíl, hafa skilað núna betra verði en áður eru dæmi um um langan tíma og flytja þeir út, eins og menn vita, til Belgíu, Danmerkur og Bandaríkjanna. Það má ekki gleyma því í þessu sambandi að verðlag á markaði erlendis fyrir íslenskt lambakjöt, og það er auðvitað grundvallaratriði, er u.þ.b. 20% hærra en á öðru dilkakjöti. Það er grundvallaratriði að markaðurinn skuli viðurkenna íslenskt lambakjöt sem sérstaka afurð. Þetta er grundvallaratriði.

Það hlýtur að vera eftirtektarvert að fylgjast með þeim málflutningi þeirra sem hér hafa talað um áhyggjur af stöðu sauðfjárbænda og þá mikilvægu viðurkenningu sem kemur fram bæði í gildi sauðfjárræktarinnar í jaðarbyggðum og svo í þeim mannlega þætti sem snýr að afkomu þess fólks sem þar býr. Byggðastofnun lét framkvæma afar nákvæma úttekt á kjörum sauðfjárbænda og sú niðurstaða var fengin á tvennan hátt. Þar kom í ljós að síðasta ár var það bágasta fyrir sauðfjárbændur um margra, og áreiðanlega mjög margra, ára skeið. Nærtækasta skýringin í þeim efnum er að frá árinu 1991 drógust fjölskyldutekjur í sauðfjárrækt saman um 46%, hvorki meira né minna en 46%. Sem betur fer skaut það gríðarlega skökku við það sem gerðist annars staðar í þjóðfélaginu, þar sem fjölskyldutekjur höfðu þó aukist frá þessu sama ári. Það er afar þýðingarmikið að menn viðurkenni staðreynd sem þessa.

Hæstv. landbrh. skýrði það að ekki hefur verið vilji fyrir því innan bændastéttarinnar að horfa sérstaklega til jaðarbyggðanna. Ég held að það þurfi að láta reyna á það öðru sinni. Það hefur reyndar verið lítill skilningur á þörfum jaðarbyggðanna og má í því sambandi minna á, sem er í nokkru framhaldi af því sem kom fram í ræðu hv. þm. Ágúst Einarssonar, að á síðasta ári þegar tekin var ákvörðun um að veita umtalsvert fjármagn til skógræktar, þá var farið með þá fjárveitingu í það byggðarlag þar sem skógræktarskilyrðin voru reyndar verri en annars staðar og sauðfjárræktin hafði tiltölulega lítið gildi sem atvinnugrein. Það er ekki að ástæðulausu þótt hv. þm. Ágúst Einarsson hnykki á því að það þurfi auðvitað að horfa til sauðfjárbyggðanna í víðara samhengi. Af þessu er æðigóð reynsla að því er varðar skógræktarstarf á Fljótsdalshéraði sem hefur skilað án nokkurs vafa góðum árangri í sambandi við tekjur og afkomu bænda á Fljótsdalshéraði. Ég hygg að finna megi fyrir því rök að það sem hefur verið borgað fyrir þá starfsemi af opinberu fjármagni sé nokkuð í takt við það sem hefur dregist saman í sauðfjárræktinni á þessu tímabili þannig að full ástæða er til þess að að því sé hugað hvernig farið er með aðrar fjárveitingar í þessu sambandi.

Ég orðlengi þetta ekki frekar enda er tími minn búinn. Ég þakka flutningsmönnum fyrir þennan tillöguflutning og vona að umræðan um hann í landbn. skili árangri.