Vörugjald af olíu

Þriðjudaginn 03. febrúar 1998, kl. 19:33:39 (3371)

1998-02-03 19:33:39# 122. lþ. 57.8 fundur 358. mál: #A vörugjald af olíu# frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur

[19:33]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég held að mestu máli skipti að átta sig á efnislegum áhrifum eða afleiðingum af breytingum af þessu tagi. Þegar skattlagning á í hlut verða menn að reyna að átta sig á þessu: Er hún sanngjörn? Hvernig leggst hún á? Hvernig er best að afla teknanna sem menn eru sammála um að reyna að afla og láta byrðarnar af þeirri tekjuöflun dreifast? Ég fullyrði að fyrirkomulagið með tvöfaldri skattlagningu á aksturinn í reynd, í gegnum olíueyðsluna annars vegar og viðbótarkílómetragjald hins vegar, er hroðalegur gaffall á þá flutningsaðila eða öllu heldur greiðendur þeirrar þjónustu sem fá til sín vöru um lengstan veg, og það er fólkið í afskekktustu byggðarlögum landsins.

Varðandi úrskurð samkeppnisráðs þá get ég haft mínar skoðanir á honum. Ég er yfirleitt ánægður með störf Samkeppnisstofnunar og samkeppnisráðs en ég leyfi mér líka að gagnrýna það og ég tel mig ekki verri mann en hvern annan til þess því að ég kom talsvert við sögu þegar verið var að setja þá löggjöf á sínum tíma og átti þátt í því að móta hana, þó að ég segi sjálfur frá, og hef reynt að fylgjast með því hvernig til hefur tekist síðan. Að sjálfsögðu á bæði að gagnrýna og hrósa því sem vel er gert. Ég var ekki sammála því að öllu leyti að úrskurðurinn væri heilög vísindi og vel getur verið að við flokksbræðurnir, ég og Guðmundur Lárusson, höfum ekki verið alveg sama sinnis þar og það er bara heilbrigt og gott að menn greini einstöku sinnum á, ágæta menn eins og okkur sem erum annars oft og iðulega sammála.

Menn verða auðvitað að bregðast við úrskurðinum. Hann liggur fyrir og menn verða að finna einhverjar leiðir sem hafa ekki þá annmarka sem þar er verið að benda á og ég er sannfærður um að við munum finna þær.