Viðskiptabann gegn Írak

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:43:32 (3381)

1998-02-04 13:43:32# 122. lþ. 58.2 fundur 418. mál: #A viðskiptabann gegn Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:43]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það er mjög erfitt að svara svo umfangsmiklu máli sem þetta er í stuttum fyrirspurnatíma en ég skal reyna að gera mitt besta.

Núverandi ríkisstjórn hefur ekki gert formlega samþykkt um viðskiptabannið gegn Írak. Fyrri ríkisstjórn auglýsti hinn 9. ágúst 1990 ráðstafanir til að framfylgja ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 661 vegna innrásar Íraka í Kúveit. Sama ríkisstjórn áréttaði meginákvæði þessarar auglýsingar hinn 28. apríl 1992. Núv. ríkisstjórn er sammála þessum aðgerðum fyrri ríkisstjórnar og hefur ekki séð ástæðu til að gera sérstaka samþykkt um það efni.

Í öðru lagi. Viðskiptabannið miðar að því að knýja stjórnvöld í Írak til samstarfs um afvopnun sem er hluti friðarsamkomulagsins sem gert var að loknum Flóabardaga. Til þessa hefur Saddam Hussein neitað að verða við þessum skilmálum undanbragðalaust. Öryggisráðið ákvað þegar árið 1991 að gera sérstakar ráðstafanir til að heimila einstökum ríkjum tímabundið að kaupa olíu af Írak. Heimild þessi var áréttuð árið 1995 og ákveðið að Írakar mættu selja olíu fyrir allt að einum milljarði Bandaríkjadala á 90 daga tímabili í senn og nota ágóðann til kaupa á vörum í mannúðarskyni. Þessu boði höfnuðu Írakar fyrst um sinn. Náðust samningar fyrst um framkvæmd þessarar heimildar árið 1996 og hófust flutningar á matvælum til Íraks 20. mars 1997.

[13:45]

Að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna var einnig komið á fót sérstakri samstarfsáætlun sérstofnana þeirra um mannúðaraðstoð við Írak. Starfsemi þessara stofnana spannar fjölmörg svið, m.a. fæðuöflun, landbúnað, vatnsveitu, heilbrigðismál, menntun og samgöngubætur. Þrátt fyrir góða viðleitni fer fjarri að ástandið í landinu sé viðunandi. Öllum þeim stofnunum sem koma við sögu ber saman um að næringarþörf almennings í Írak sé hvergi nærri fullnægt og bitni það ekki síst á heilbrigði barna undir fimm ára aldri. Þessar upplýsingar koma fram í skýrslu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var öryggisráðinu í byrjun þessarar viku, og þar eru gerðar tillögur um að efla hjálparstarfið í samstarfi við stjórnvöld í Írak en einmitt þar hefur hnífurinn staðið í kúnni.

Sameinuðu þjóðunum er vandi á höndum að þræða öngstigi milli refsiaðgerða annars vegar og mannúðaraðstoðar hins vegar. Það væri alrangt að gefa í skyn að stofnunin sé á einhvern hátt ábyrg fyrir því alvarlega ástandi sem nú ríkir í landinu. Sannleikurinn er sá að stjórnvöld í Bagdad bera fulla ábyrgð á því hvernig komið er.

Í þriðja lagi. Alþjóðaráð Rauða krossins hefur það hlutverk að fylgjast með framkvæmd Genfarsamninganna. Það hefur ekki látið fara frá sér neinar yfirlýsingar um að Sameinuðu þjóðirnar hafi gerst brotlegar við samningana um beitingu viðskiptabannsins. Íslensk stjórnvöld eru þeirrar skoðunar að aflétta beri viðskiptabanni Sameinuðu þjóðanna á Írak jafnskjótt og aðstæður leyfa. Þær aðstæður virðast þó enn ekki í sjónmáli, því miður. Uns það verður er rökrétt að menn velti því fyrir sér hvort það þjóni málstað mannúðar og mannréttinda að aflétta refsiaðgerðum án þess að stjórnvöld í Bagdad sem sannanlega hafa beitt sinnepsgasi gegn eigin þegnum geri grein fyrir umfangsmiklum viðbúnaði sínum til lífefnahernaðar. Spyrja mætti enn fremur hvort líklegt sé að aflétting viðskiptabanns mundi hafa tilætluð áhrif í landi þar sem stjórnvöld hafa eytt meira en milljarði Bandaríkjadala til hallarbygginga yfir yfirstétt landsins á sama tíma og almenningur býr við sult og seyru.

Að því er varðar síðustu spurninguna vil ég taka fram eftirfarandi. Íslenska þjóðin tekur ekki þátt í árásum á grundvallarréttindi Íraka eða annarra þjóða. Íslendingar taka aftur á móti þátt í starfi Sameinuðu þjóðanna að tryggja frið og öryggi í heiminum. Íraksstjórn hefur, eins og flestum er kunnugt, haldið uppi árásarstefnu, gert innrás í nágrannaríki og brotið mannréttindi þegna landsins. Í þessu samhengi má minna á skýrslu sérstaks eftirlitsfulltrúa Sameinuðu þjóðanna, Max van der Stoel, um mannréttindaástandið í Írak þar sem felldur er þungur áfellisdómur yfir stjórnvöldum í Írak vegna gróflegra mannréttindabrota þeirra, þar á meðal aftökum án dóms og laga og pyndingum á föngum. Þessu ófremdarástandi vilja íslensk stjórnvöld taka þátt í að breyta.

Afstaða Íslands er því skýr í þessu efni. Við gerum kröfu til þess að Írakar virði friðarsamkomulagið sem gert var við lok Flóabardaga og hlíti öllum viðeigandi ályktunum öryggisráðsins sem m.a. kveða á um óheftan aðgang eftirlitsmanna Sameinuðu þjóðanna að mannvirkjum í Írak þar sem þarlend stjórnvöld kynnu að leyna gereyðingarvopnum eða búnaði til framleiðslu þeirra. Enn fremur líta íslensk stjórnvöld svo á að viðhalda beri viðskiptabanninu frá árinu 1990 uns Írakar sýni í verki að þeir virði vilja samfélags þjóðanna og geri hreint fyrir sínum dyrum á sviði afvopnunarmála.