Viðskiptabann gegn Írak

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:49:27 (3382)

1998-02-04 13:49:27# 122. lþ. 58.2 fundur 418. mál: #A viðskiptabann gegn Írak# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., HG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:49]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það er vissulega eðlilegt að þessi mál komi ítrekað til umræðu á Alþingi. Það er engin tilviljun. Það liggur hér reyndar fyrir þingmál sem sæmst væri að tekið yrði til efnislegrar afgreiðslu í viðkomandi þingnefnd þannig að menn geti þá greitt atkvæði um hlutina eða fái a.m.k. rökstuðning með og á móti ef þar eru skiptar skoðanir. Ég tel að það sem hér hefur komið fram hjá hæstv. utanrrh. svari ekki þeim spurningum sem uppi hljóta að vera og eru eðlilegar í sambandi við þetta mál.

Bandaríkin sem forusturíki og sterkasta ríki í heiminum hafa gert þetta mál að sérstökum prófsteini og tekið þetta alveg út úr samhengi að vissu leyti, sérstaklega ef litið er til mannréttindamála. Þar væri hægt að fara yfir langan lista þar sem ekki er fagurt ferli og er iðulega á það minnst. Það er því mjög hæpið að leggja þann mælikvarða sérstaklega á þetta ríki. Einnig þurfa menn (Forseti hringir.) vitanlega að fara yfir hina stóru spurningu um viðskiptabann, hvort það sé réttlætanlegt í þessu tilviki og ýmsum fleiri, og vænlegt til árangurs.