Fjöldatakmarkanir við Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 13:59:54 (3388)

1998-02-04 13:59:54# 122. lþ. 58.3 fundur 380. mál: #A fjöldatakmarkanir við Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[13:59]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Fjöldatakmarkanir eru að mínu viti jafnan af hinu illa. Ég tel að ef þeim hefði verið beitt á ýmsar aðrar deildir háskólans en þær sem nú eru við lýði þá hefði getað farið illa. Ég tek sem dæmi líffræði þar sem halda má fram að á undanförnum árum hafi verið nokkur offramleiðsla á líffræðingum og þeir hafa fundið sér störf í óskyldum greinum.

[14:00]

Nú gerist það hins vegar að upp kemur fyrirtæki eins og Íslensk erfðagreining og getur þá sótt til þessa fólks sem hefur fundið sér önnur störf. Forsendan fyrir því að hægt er að byggja upp þetta merka fyrirtæki er að ekki voru lagðar á fjöldatakmarkanir í líffræðideildinni eins og raddir voru uppi fyrir nokkrum árum um að gera.

Núna hefur það komið fram í svari við fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. menntmrh. að á síðustu árum hafa reglur um fjöldatakmarkanir verið hertar allverulega. Það hefur líka komið fram, herra forseti, að læknaekla er fyrirsjáanleg innan 8--12 ára. Þetta hefur komið fram í könnunum sem Læknafélag Íslands hefur staðið fyrir og byggir aðallega á því aldursbili sem læknastéttin í dag er einkum á.

Í öðru lagi hefur komið fram að eftir árið 1992 fækkaði þeim sem teknir voru inn í læknadeild háskólans um fimmtung. Það leiðir auðvitað til þess að sú læknaekla sem er fyrirsjáanleg verður að öllum líkindum erfiðari fyrir vikið. Einnig hefur komið fram í umræðum um heilbrigðismál og stöðu sjúkrahúsanna og mönnunarmál sjúkrahúsanna að erfitt er að manna stöður aðstoðarlækna einmitt vegna þess að hert hefur verið á kröfunum um aðgang að læknadeild Háskóla Íslands eins og var gert milli 1992 og 1996.

Í fjórða lagi nefni ég, herra forseti, að einn af þingmönnum Framsfl., hv. þm. Guðni Ágústsson, hefur lýst því yfir í þessum stóli að stefna eigi að því að rýmka aðgang að læknadeildinni og draga helst úr fjöldatakmörkunum. Í ljósi þess sem ég hef sagt leyfi ég mér, herra forseti, að varpa þeirri spurningu til hæstv. heilbrrh. og henni er að sjálfsögðu kunnugt um það allt saman, hvort hæstv. ráðherra telur ekki að tímabært sé að rýmka aðganginn að læknadeildinni eða að aflétta numerus clausus með öllu.