Fjármagn vegna mælinga á geislavirkum efnum í sjó

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:19:18 (3397)

1998-02-04 14:19:18# 122. lþ. 58.4 fundur 395. mál: #A fjármagn vegna mælinga á geislavirkum efnum í sjó# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:19]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Ég þakka þær upplýsingar sem komu frá hæstv. ráðherra um aðstöðu Geislavarna ríkisins. Það er grundvallaratriði að þessi stofnun sé ætíð sem best búin til vöktunar og mælinga sem er undirstaða undir slíku og gildir þá í rauninni einu hvort komnar eru vísbendingar um hættu. Engu að síður þurfum við að staðfesta gott ástand þegar það liggur fyrir því að það er stuðningur við okkur og það eru auk þess nauðsynlegar bakgrunnsmælingar ef síðan kemur til mengunar.

Ég vil aðeins nota minn tíma til að hvetja hæstv. heilbrrh. eins og ríkisstjórnina alla og umhvrh. að sjálfsögðu sem hlýtur að vera þar í fararbroddi að taka þar upp öfluga baráttu á alþjóðlegum vettvangi og af hálfu íslensku ríkisstjórnarinnar fyrir því að endurvinnslustöðvunum í Bretlandi, bæði Sellafield og Dounreay og La Hague-stöðinni í Frakklandi verði lokað og þar verði hætt þeim óviðunandi rekstri og framgöngu að losa mikið magn geislavirkra efna í hafið og kasta því fyrir dyrnar hjá öðrum. Þetta er gersamlega ólíðandi og það er ánægjuefni að hæstv. umhvrh. hefur nú ámálgað þetta við breskan starfsbróður sinn. Umhvn. og aðrar nefndir þingsins, utanrmn. þar á meðal, taka málið væntanlega til athugunar fyrir þingsins hönd nú á næstunni. Ég hef komið upplýsingum um þetta á framfæri í umhvn. og viðræður standa fyrir dyrum milli þingnefnda hvernig á málinu skuli haldið en ég tel sjálfsagt að Alþingi láti rödd sína heyrast kröftuglega eins og áður hefur verið gert í þessum efnum.