Fjármagn vegna mælinga á geislavirkum efnum í sjó

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:21:33 (3398)

1998-02-04 14:21:33# 122. lþ. 58.4 fundur 395. mál: #A fjármagn vegna mælinga á geislavirkum efnum í sjó# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:21]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég held að öll aðalatriði málsins hafi komið fram. Aðalatriðið er að við getum fullnægt þeirri vöktun sem nauðsynleg er til þess að geta mælt hvort um geislavirk efni er að ræða í hafinu í kringum okkur.

Um það umvöndunaratriði sem kom fram að það hafi verið óeðlilegt að þetta hefði verið kynnt í fjölmiðlum er það nú þannig að ríkisstjórn Íslands samþykkti aukafjárveitingu til þessa málefnis og á þessu ári er varið 3,5 millj. og það var samþykkt á ríkisstjórnarfundi og dagskrá ríkisstjórnarfundar er ekki leyniplagg. En það vill svo til að fyrirspurnin lá fyrir þinginu og ég held að það geti varla truflað málið á nokkurn hátt og gott að hv. þm. vakti athygli á því. Ekki það að við höfum ekki verið búin að rannsaka þetta áður og verið með þetta mál í undirbúningi en ég virði mjög svo skoðanir hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og þau varnaðarorð sem hann hefur oft uppi. En aðalatriðið er að við getum fullnægt vöktuninni.