Fjöldatakmarkanir við læknadeild Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:31:35 (3401)

1998-02-04 14:31:35# 122. lþ. 58.5 fundur 381. mál: #A fjöldatakmarkanir við læknadeild Háskóla Íslands# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi ÖS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:31]

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Af því hæstv. ráðherra drap á leiðir til að fjölga þeim læknum sem stundum hafa verið kallaðir stríðslæknarnir á íslenskum sjúkrahúsum, þá er það rétt hjá honum að ein leiðin er sú að koma upp einhvers konar vísi að framhaldsnámi. Ég er sammála því. Önnur er auðvitað sú að reyna að fækka þessum aðstoðarlæknastöðum og ráða fleiri sérfræðinga. Þriðja leiðin væri sú að fjölga þeim námsmönnum sem fara í þessar stöður.

Ég spurði hæstv. ráðherra: Hvaða breytingar urðu á klínískri getu sjúkrahússkerfisins sem leiddu til fækkunarinnar 1993? Hann svaraði mér skýrt. Hún var sú að bráðadeild var lokað. Það er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra. Á ég þá að gera ráð fyrir því að þegar aftur er fjölgað 1996, þá höfum við opnað bráðadeild? Nei. Það get ég ekki gert. En svar hans og sú staðreynd sem ég bendi hér á sýnir aðeins eitt. Þetta er byggt á geðþótta. Þetta er ekki byggt á sérstökum reglum eða því raunverulega námsrými sem er fyrir höndum. Ég vek athygli á því að ég dreg það mjög í efa að klínískt nám hafi verið eitthvað verra fyrir 15--20 árum en þá voru 45 og stundum upp í 50 kandídatar í námsstöðum á spítölunum. Þetta er mergur málsins. Reglurnar eru ekki skýrar og hæstv. ráðherra sem er þekktur fyrir að vilja hafa sín mál á hreinu, ætti að beita sér fyrir því að þetta yrði miklu gegnsærra. Í dag er staðan ekki nógu góð. Hæstv. ráðherra kemur síðan og vísar í einhverja skýrslu frá 1996 þar sem mat er lagt á læknaþörf. Hæstv. heilbrrh. er í mjög greinargóðu svari búinn að benda á að sú úttekt er löngu fokin út í veður og vind. Það er alveg sama hvaða yfirmann í læknaliði á ríkisspítölunum eða á Sjúkrahúsi Reykjavíkur hæstv. menntmrh. hefur talað við, þeir munu allir segja honum að læknaekla sé fyrirsjáanleg. Að hluta á hún sök á innbyrðis vanda í ráðuneytunum sem tóku vitlausar ákvarðanir árin 1992 til 1996.