Fjármagnstekjuskattur

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:41:35 (3405)

1998-02-04 14:41:35# 122. lþ. 58.6 fundur 416. mál: #A fjármagnstekjuskattur# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:41]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. fyrir svörin. Ég bjóst að vísu ekki við að fá fullkomin svör við þeim spurningum sem ég lagði fram. Þó taldi ég að hægt væri að ná fram fyllri upplýsingum en fjmrh. gaf. Einungis liggja fyrir upplýsingar um söluhagnað á hlutabréfum, 62 millj. kr. En ég hlýt að velta fyrir mér hvort ekkert liggi fyrir um innlánsstofnanir sem færa fjármagnstekjuskattinn um áramót. Bankar og innlánsstofnanir hafa fengið fjármagnstekjuskatt, staðgreiðsluskatt sem ætti strax að skila sér til ríkissjóðs. Þegar á þessu ári hafa verið teknar út inneignir í bönkunum. Þess vegna spyr ég: Ef ekkert uppgjör liggur fyrir fyrr en á miðju ári halda þá bankarnir því sem inn hefur komið í fjármagnstekjuskatt í sinni vörslu og skila ekki í ríkissjóð fyrr en síðar á árinu? Það hlýtur að liggja fyrir uppgjör um áramót hjá bönkunum um það sem þeir hafa fært sem fjármagnstekjuskatt. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um hve mikið hafi verið gert ráð fyrir að skilaði sér á árinu 1997 í fjármagnstekjuskatt. Áætlanir frá nefndinni sem samdi frv. gerðu ráð fyrir að fyrstu árin kæmu í skatt um 600 eða 700 millj.

Ég vil líka spyrja ráðherrann beint, varðandi lið 2 þar sem ég bið um upplýsingar um skiptinu fjármagnstekjuskattsins eftir eigna- og tekjustöðu og aldri greiðenda, hvernig þessi skattur hefur komið niður. Hæstv. ráðherra telur að það sé alls ekki víst, þegar þetta liggur fyrir hvort við getum fengið slíka skiptingu og upplýsingar sem væru mjög gagnlegar og nauðsynlegar fyrir okkur þegar við erum að meta hvort endurskoða þurfi þennan skatt. Ef ráðherrann telur erfitt að kalla hann fram í núverandi kerfi, telur hann þá ekki nauðsynlegt að gera þær breytingar að við getum örugglega fengið þær upplýsingar sem hér er kallað eftir um mitt næsta ár? Tilefni þessarar fyrirspurnar er einmitt það að þingmenn geti nú eða á miðju ári lagt mat á það framkvæmdina og hvernig hún hefur komið niður á einstökum greiðendum. Ég spyr því um álit fjmrh. á því hvort hann telji ekki eðlilegt að hægt verði að fá að vita skiptinguna og hvort hann muni ekki gera nauðsynlegar ráðstafanir til að við getum fengið að vita hver hún er ekki síðar en á miðju ári.