Störf tölvunefndar

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 14:57:04 (3410)

1998-02-04 14:57:04# 122. lþ. 58.7 fundur 417. mál: #A störf tölvunefndar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[14:57]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil nú byrja á því að leiðrétta hv. þm. Kristján Pálsson sem fer hér með rangt mál. Það hefur ekki verið neitt sérstakt hagsmunamál mitt að koma höggi á eitt einasta fyrirtæki hér í bæ, alls ekki. Ég tel mér hins vegar skylt að gæta almannahagsmuna. Ég tel rétt að við tryggjum að hér sé ávallt persónuvernd og ég verð að viðurkenna að ég varð mjög hissa um daginn þegar fyrirtækið sem hv. síðasti ræðumaður nefndi, var með t.d. lista með nöfnum og kennitölum sjúklinga hjá SÁÁ. Það fannst mér afar furðulegt. Þetta var hins vegar misskilningur að mér skilst þannig að það er búið að leiðrétta það.

Hins vegar er alveg ljóst að þegar fyrirtæki af þessari gráðu kemur hér inn á markaðinn, þá er afar mikilvægt að við tryggjum að allt sé í lagi, öll persónuvernd sé í lagi. Ég held að það sé þessu fyrirtæki í hag og það hafa stjórnendur þessa fyrirtækis sagt. Þeir vilja hafa þessi mál í lagi. Og það hefur komið fram hjá forstjóranum í erlendum tímaritum sem ég hef lesið, að hann vill að þessi mál séu skotheld og það er einmitt þannig sem við eigum að vinna og þess vegna þarf tölvunefnd að geta fullnægt því. Þess vegna þarf þetta fyrirtæki eins og önnur fyrirtæki að geta fengið starfsleyfi hratt og örugglega og geta sýnt fram á það með tölvunefnd að allt sé í lagi.

Ég vil fá aðeins betri svör hjá hæstv. dómsmrh. Hann tók undir að það þyrfti að styrkja tölvunefnd og nefndi einmitt þessa tilskipun sem er á leiðinni. Ég hefði viljað fá skýrari svör um það hvenær hæstv. ráðherra sér ástæðu til þess að styrkja tölvunefnd. Ég held að það eigi að gera það strax. Tölvunefnd þarf starfsmann í fullt starf. Hún þarf líka lögfræðing og hún þarf tölvusérfræðing. Þarna verða að vera nú a.m.k. þrír starfsmenn, að mínu mati, á fullum launum og ég held að það þýði ekkert að bíða með það. Ég hefði því viljað fá tímasetningar hjá hæstv. ráðherra, þ.e. hvenær hann telji æskilegt að styrkja tölvunefnd.