Störf tölvunefndar

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 15:00:34 (3412)

1998-02-04 15:00:34# 122. lþ. 58.7 fundur 417. mál: #A störf tölvunefndar# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur

[15:00]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég hygg að flestar ríkisstofnanir hafi sett fram hugmyndir um að fá aukið starfslið og það eigi einnig við um þessa stofnun. Það er vissulega rétt að mikið álag er á starfsmanni nefndarinnar og nefndinni. En við í ráðuneytinu höfum talið eðlilegt að aukin umsvif þeirrar nefndar, sem eru fyrirsjáanleg, tengdust þeim skipulagsbreytingum sem í vændum eru. Fjárlög hafa verið samþykkt fyrir þetta ár og það var mat ráðuneytisins að þau framlög sem samþykkt eru á fjárlögum væru nægjanleg til þess að nefndin gæti rækt lögbundið hlutverk sitt á þessu ári. Þingmenn stjórnarflokkanna voru sammála því mati og samþykktu fjárlög fyrir þetta ár með þeim hætti. En þetta mál er að sjálfsögðu í mikilli þróun og ráðuneytið mun vinna að framgangi þess í samræmi við þá þróun, og tryggja jafnharðan og nauðsyn krefur eðlilega starfsaðstöðu nefndarinnar.