Efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 15:28:57 (3417)

1998-02-04 15:28:57# 122. lþ. 59.6 fundur 266. mál: #A efling sauðfjárbúskapar í jaðarbyggðum# þál., StG
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:28]

Stefán Guðmundsson:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær ræður sem fluttar hafa verið og hafa vissulega verið innlegg í þetta mál. Það er hárrétt sem kom fram hjá hv. þm. Guðna Ágústssyni að við megum kannski ekki alveg gleyma okkur í að fjalla um þessar svokölluðu jaðarbyggðir. Auðvitað geri ég mér grein fyrir þeim vanda sem þar er, bæði að greina jaðarbyggðirnar og hvernig koma megi þar til aðstoðar. Það verður örugglega lengi hægt að deila um það að þar gæti orðið um verulega mismunun að ræða. En við viljum láta reyna á það hvort hugsanlegt er að finna leiðir. Ég trúi því og er enn sannfærðari um skilning hv. 1. flm. þessarar tillögu, Einars Odds Kristjánssonar, á því að menn geta fundið leiðir að því marki sem tillagan stefnir að.

Hv. þm. Guðni Ágústsson minntist einmitt á nýgreinarnar eða hvort sem við köllum það stoðgreinar eða nýgreinar. Við veltum því fyrir okkur og ég hef velt því mjög fyrir mér hvort þessar greinar gætu orðið að liði meðan menn eru að komast upp úr þeim öldudal sem við erum nú í með hinn hefðbundna búskap. Ég nefndi t.d. fiskeldi sem hefur átt undir högg að sækja og þau gríðarlegu verðmæti sem liggja ónýtt núna vítt og breitt um landið, ég fullyrði upp á marga milljarða ef ekki milljarðatugi, og bíða þess eins að grotna niður og verða engum að gagni. Það er auðvitað áhyggjuefni. Meðan aðrar þjóðir stórgræða á fiskeldi. Ef við opnum erlend blöð þar sem fjallað er um þetta segja menn að við séum víðast hvar komnir að nýtingarmörkum þess sem hafið gefi og nú sé það fiskeldið sem menn horfa helst til.

[15:30]

Ég vil líka nefna loðdýraræktina sem oft hefur verið nefnd hér og hefur því miður mátt búa við mjög óvægna umræðu bæði hjá ákveðnum þingmönnum og í fjölmiðlum. En þá er okkur skylt að gera okkur grein fyrir: Af hverju loðdýrarækt? Af hverju datt mönnum í hug að byggja upp loðdýrarækt á Íslandi? Var það tilviljun eða hvað? Eða var það sérviska einhverra manna sem börðust fyrir því? Nei, það var ekki aldeilis svo. Við sem fórum þar fyrir gerðum okkur grein fyrir því að Danir flytja út loðskinn fyrir 30--40 milljarða kr. á ári. Hvað er það sem Danir hafa fram yfir okkur Íslendinga til þess að geta framleitt loðskinn? Hvað er það? Er það veðurfarið? Er það heilbrigði dýra? Er það þekkingin? Eða er það fóðrið, möguleikar á hráefni til fóðurgerðar sem Danir eru núna að safna saman hringinn í kringum Ísland og ætla sér að gera til framtíðar, og flytja út til Danmerkur til að fæða loðdýrin hjá sér? Skekkir þetta samkeppnisstöðu okkar? Nei. Það er kannski aðeins eitt sem er til umhugsunar fyrir okkur sem í þessu vorum að reyna að vinna og verða að liði, það var spurningin um þekkinguna, þ.e. hvort við Íslendingar hefðum hana. Þar held ég við höfum staðið Dönum að baki og ekki að furða. En ég undraðist hvað íslenskir bændur voru þó fljótir að ná tökum á þessari atvinnugrein og nú stöndum við okkur svo sannarlega í stykkinu hvað þessi mál varðar. Ég er sannfærður um að við eigum mikla möguleika en þá þarf skilningur að aukast á þessari starfsemi.

Ég nefni einnig aðra grein sem má vissulega kalla nýgrein þó ekki sé hún alveg ný því við hana hafa menn vissulega verið að vinna, þ.e. kornrækt á Íslandi sem menn höfðu ekki trú á fremur en svo mörgu öðru, að hægt væri að stunda á Íslandi. Það er engin spurning að þar er búið að vinna mikið brautryðjendastarf og þeir sem í því hafa staðið eiga þakkir skildar.

Ef ég lít heim í mitt kjördæmi og velti fyrir mér þeirri þróun sem þar er í þessari ungu grein, þá kemur mér á óvart og ábyggilega einnig þeim ágætu þingmönnum sem hér sitja og hlýða á mál mitt ekki síður, og enn frekar, að nú hafa hvorki fleiri né færri en 30 bændur í Skagafirði hafið að þróa sig áfram í kornrækt. Það vekur kannski enn meiri undrun að þar er nú búið að brjóta land til kornræktar hvorki meira né minna en um 300 hektara lands. Um 300 hektara lands er búið að brjóta í Skagafirði til að hefja kornrækt. Og það sem er kannski gleðilegast, er að þessi starfsemi lofar ótrúlega góðu. Og enn eru vísindamenn okkar, hinir hæfustu vísindamenn að þróa enn betri kvæmi sem lofa okkur enn betri árangri. Því velti ég því fyrir mér hvort það sé alveg rétt að tala um þessar geinar sem stoðgreinar við aðra atvinnustarfsemi í landinu. Ég segi það fyrir mig að ég trúi því að svo sé ekki. Við erum að tala um nýgreinar sem eiga mikla framtíð fyrir sér í íslenskum landbúnaði. En þá þarf skilningur manna að breytast og eðlilegur stuðningur að koma til, til að þessar atvinnugreinar geti þrifist. Ég trúi því að svo muni verða.

Ég hlustaði nýverið á ágæta ræðu hæstv. landbrh. þar sem hann fjallaði um þessi mál af mikilli þekkingu og víðsýni og ég trúi því að hann sé tilbúinn og muni vilja verða að liði til að styrkja þessar greinar.

Virðulegur forseti. Að lokum vil ég segja að ég trúi því að hv. landbn. taki þessari tillögu okkar vel og ég hef heyrt það þegar á hv. þm. Guðna Ágústssyni, formanni landbn. og ég trúi því að hún muni verða íslenskum landbúnaði til góðs.