Fæðingarorlof

Miðvikudaginn 04. febrúar 1998, kl. 15:42:10 (3419)

1998-02-04 15:42:10# 122. lþ. 59.7 fundur 265. mál: #A fæðingarorlof# (breyting ýmissa laga) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 59. fundur

[15:42]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég óska eftir að hæstv. heilbrrh. verði viðstödd þessa umræðu.

Ég get aðeins byrjað mitt mál, herra forseti, í þeirri von að hæstv. heilbrrh. láti sjá sig hér í salnum vegna þess að ég hef kvatt mér hljóðs út af þessu máli aðallega til að ræða við hæstv. heilbrrh.

(Forseti (RA): Þegar hafa verið gerð boð til hæstv. heilbrrh. og ég á von á að hún gangi í salinn á hverri stundu.)

Herra forseti. Þetta frv. til laga um breytingar á lögum um fæðingarorlof sem rætt var hér í síðustu viku og flutt er af þingmönnum stjórnarandstöðunnar undir forustu hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur, er að mínu viti eitt stærsta jafnréttismál sem við höfum fjallað um í þingsölum í langan tíma. Við ræddum stjórnarfrv. um fæðingarorlof fyrir jólin, þ.e. frv. heilbrrh. sem tryggja átti feðrum á almennum vinnumarkaði tveggja mánaða fæðingarorlof. Í þeirri umræðu varð nokkur umræða almennt um fæðingarorlof þó takmörkuð væri vegna þess knappa tíma sem við höfðum til að afgreiða það mál fyrir jólin. En það brann mjög á mörgum þingmönnum að ræða almennt um fæðingarorlof og heyra viðhorf hæstv. heilbrrh. til breytingar almennt á löggjöf um fæðingarorlof. En þar sem ég vissi þá að von væri á umræðu um fæðingarorlof eftir áramótin vegna frv. þess sem ég nefndi, taldi ég rétt að bíða með almenna umræðu um fæðingarorlof sem ég taldi að mundi skapast þá. Þess vegna kom það mér satt að segja mjög á óvart þegar við ræddum þetta mál fyrir helgi að hæstv. heilbrrh., sem þá var stödd hér í húsinu, skyldi ekki vera í þingsalnum meðan verið var að ræða þetta mál, eða a.m.k. mjög takmarkað. Og það stefndi í að umræðunni lyki án þess að hæstv. heilbrrh. tæki þátt í henni eða svaraði fyrirspurn sem beint var til hennar af hv. 1. flm. þessa máls.

[15:45]

Tilefni þess að ég kvaddi mér hljóðs var að ég vildi fá fram afstöðu hæstv. heilbrrh. til ýmissa atriða sem koma fram í frv. Við erum að ræða mjög stefnumarkandi mál sem er kannski einn stærsti þátturinn í opinberri fjölskyldustefnu sem þingið samþykkti fyrir ekki mörgum mánuðum. Því hlýtur það að kalla á að við fáum afstöðu hæstv. heilbrrh. til þeirra atriða sem fram koma þegar við erum að ræða eitt stærsta atriði sem um getur í opinberri fjölskyldustefnu. Herra forseti, þetta frv. er nefnilega mjög stefnumarkandi. Við erum í fyrsta skipti í langan tíma að fjalla á heildstæðan hátt um fæðingarorlofslöggjöfina, hvernig við viljum sjá fæðingarorlof í framtíðinni og hvernig við viljum búa að fjölskyldum landsins, varðandi þetta stóra mál.

Hér er verið að taka á mörgum þáttum sem hafa brunnið á fólki. Við erum að samræma fæðingararorlofið almennt vegna þess að við þekkjum að það er mismunandi á almenna markaðinum og hjá hinu opinbera. Þeir sem eru á almennum markaði, foreldrar, nú bæði feður og mæður, þurfa að búa við það að þiggja aðeins bætur almannatrygginga meðan þeir sem eru hjá hinu opinbera eins og við þekkjum, fá þriggja mánaða óskert laun og síðan grunnlaun í þrjá mánuði. Það hefur komið fram í umræðunni þegar við komum loks á feðraorlofi að mismunurinn sem þar er, bæði varðandi almenna markaðinn og vinnumarkaðinn, bryti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þó vorum við í mörg ár og áratugi búin að búa við þetta misræmi að því er varðar konur. Ég er alveg sammála því að við erum að brjóta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar með því að hafa svona mismunandi fæðingarorlof. Þess vegna er það mjög stefnumarkandi að samræma fæðingarorlofið. Við erum vitaskuld ekki að tala um að fæðingarorlof foreldra hjá hinu opinbera, sem búa við betri aðstöðu varðandi fæðingarorlof, sé trappað niður til jafns við það sem er á almenna markaðnum, heldur erum við að tala um að samræma þetta upp á við. Við erum í frv., herra forseti, að tala um að lengja fæðingarorlofið í tólf mánuði eins og er víðast hvar í þeim löndum sem við þekkjum þannig að mæður hafi sex mánaða fæðingarorlof, feður þrjá mánuði og síðan skipta foreldrar á milli sín síðustu þrem mánuðunum. Við erum líka að tala um mjög mikilvægt atriði í frv. sem er fjármögnunin á fæðingarorlofinu sem hefur verið þannig að foreldrar, eða mæður, hafa verið sett í þá stöðu að það geti bitnað á vinnu þeirra eða stöðu ef þær taka fæðingarorlof. Þess vegna er lagt til breytt fyrirkomulag á fjármögnun þannig að fæðingarorlof verði fjármagnað úr sameiginlegum potti sem atvinnurekendur greiða.

Herra forseti. Við erum að tala um samræmingu, við erum að tala um lengingu á fæðingarorlofi og við erum að tala um breytta fjármögnun. Það er mjög mikilvægt að það sé rætt áður en við tökum afstöðu til þess og áður en stjórnarfrv. kemur fram um málið hvernig þingmenn vilja sjá fyrir sér fæðingarorlof. Ég spyr því hæstv. ráðherra um þá þrjá þætti varðandi fæðingarorlof sem ég hef nefnt og fer fram á að hún geri okkur þingmönnum ítarlega grein fyrir afstöðu sinni til þessara þátta. Hver er skoðun hennar á því? Hver er framtíðarsýn hennar á því? Hvernig vill hún sjá fæðingarorlof hér í framtíðinni? Ekki síst vil ég spyrja að því, herra forseti, er hæstv. ráðherra sjálf með eitthvað í undirbúningi að því er varðar breytingar á fæðingarorlofslöggjöfinni? Það var nefnd að störfum sem náði ekki niðurstöðu og mér skilst að hún hafi hætt störfum. Kallað var eftir því fyrir jólin hvort hæstv. ráðherra væri með slíkt í undirbúningi, hvort hún væri með í undirbúningi að skipa nefnd til að endurskoða og koma með heildarendurskoðun á fæðingarorlofslöggjöfinni og hvort stjórnarandstaðan, sem hefur mikið til málanna að leggja eins og sést á frv., fengi þá aðgang að því starfi? Þetta vil ég spyrja um vegna þess að það skiptir nokkru máli í umfjöllun málsins þótt málið geti staðið sjálfstætt út af fyrir sig og þingið samþykkt það án þess að það komi inn stjórnarfrv. en það er oft bent á að ráðherrar séu með hitt og þetta í undirbúningi. Þess vegna þurfum við að vita það, bara fyrir framgang málsins á þingi, hvort eitthvað sé á döfinni hjá hæstv. ráðherra, eða hvort hún ætli að láta við það sitja sem hún hefur gert í fæðingarorlofsmálunum, sem er vissulega mjög góð bót á fæðingarorlofslöggjöfinni.

Ég vil í lokin, herra forseti, spyrja hæstv. ráðherra um það sem mér finnst mjög athyglisvert sem kemur fram í greinargerð með frv. á bls. 6, en þar segir eftirfarandi með leyfi forseta:

,,Með aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu skuldbinda stjórnvöld sig til að tryggja launafólki sama lágmarksrétt hér á landi og gildir í löndum Evrópusambandsins. Með tilskipun um vinnuvernd barnshafandi kvenna frá 19. október 1992 eru aðildarlöndin skyldug til að lögbinda að minnsta kosti 14 vikna fæðingarorlof með óskertum launum eða dagpeningum sem jafngilda veikindalaunum konunnar. Ljóst er að nauðsynlegt er að breyta reglum um fæðingarorlof hér á landi til að standa við ákvæði ofannefndrar tilskipunar en aðlögunartíminn, sem er tvö ár, er þegar útrunninn.``

Sá aðlögunartími, sem við höfum til að aðlaga okkur að þessari tilskipun og greiða að minnsta kosti 14 vikna fæðingarorlof á óskertum launum, er þegar útrunninn. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún viti af tilskipununni? Hefur það verið skoðað í ráðuneyti hennar og mun hún beita sér fyrir því að við getum framfylgt og uppfyllt þau ákvæði sem felast í tilskipuninni? Það er mjög mikilvægt að fá fram afstöðu ráðherra til þessa máls, hvort hún þekki þá þessa tilskipun, og hvernig hún hyggst beita sér fyrir því að hún komist til framkvæmda. Ég vænti þess að fá svör hæstv. ráðherra við þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hennar og ekki bara fyrirspurnum heldur er ég að spyrja um afstöðu ráðherrans til mjög stórra þátta í þeirri framtíðarsýn sem við í stjórnarandstöðunni viljum sjá í fæðingarorlofsmálum.