Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 10:48:53 (3426)

1998-02-05 10:48:53# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[10:48]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Þegar frv. til sveitarstjórnarlaga var til 1. umr. í þinginu fyrr í vetur kom fram gagnrýni á að ákvæði til bráðabirgða rímaði ekki við þjóðlendufrv. Ég er að vísu ekki sammála þeirri gagnrýni, en til þess að taka af allan vafa um það að þessi frumvörp stemmi saman, þá mun ég óska eftir því við hv. félmn. að hún flytji brtt. um breytt orðalag á ákvæðinu til bráðabirgða. Þetta ákvæði kæmi þá til með að orðast svo:

,,Vegna ákvæðis 1. mgr. 1. gr. laganna skal þeim hlutum landsins, þar með töldum jöklum, sem ekki hefur þegar verið skipað innan staðarmarka sveitarfélaga á grundvelli 1. eða 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986, skipað innan staðarmarka sveitarfélaga með eftirfarandi hætti:

Eignarlandi skal skipað innan staðarmarka sama sveitarfélags og sú jörð sem það hefur áður tilheyrt, nema fyrir liggi sérstakar heimildir um annað.

Nú eiga íbúar tiltekins sveitarfélags upprekstrarrétt í afrétt sem ekki hefur verið skipað innan staðarmarka neins sveitarfélags og skal hann þá teljast til þess sveitarfélags.

Ef íbúar fleiri en eins sveitarfélags eiga upprekstrarrétt í afréttinn og ekki næst samkomulag um til hvers þeirra hann skuli teljast, sker óbyggðanefnd, sem starfar samkvæmt lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, úr. Óbyggðanefnd skal einnig skera úr ágreiningi sem rís vegna 2. mgr.

Þegar óbyggðanefnd úrskurðar að landsvæði skuli teljast þjóðlenda skal nefndin kveða á um hvernig þeim hluta þess sem ekki telst afréttur, skuli skipað innan staðarmarka sveitarfélaga. Skal miða við að framlengja staðarmörk aðliggjandi sveitarfélaga inn til landsins, þar með talið á jöklum, en þó þannig að fylgt sé náttúrlegum mörkum eða mörkum sem byggja á sérstökum heimildum um mörkin, þar sem nefndin telur það eiga betur við. Óbyggðanefnd getur í þessu tilviki breytt mörkum frá því sem kann að hafa verið um samið milli sveitarfélaga, þar með talið samkvæmt heimild í 5. mgr. ákvæðis þessa og 2. mgr. 3. gr. laga þessara, eða þau ákveðin með öðrum hætti.

Meðan óbyggðanefnd hefur ekki úrskurðað um einstök landsvæði sem ekki hefur verið skipað innan staðarmarka sveitarfélaga, getur félmrh. staðfest samkomulag sem sveitarfélög hafa gert um staðarmörk sveitarfélaga á slíkum svæðum. Félmrn. skal birta auglýsingu um ákvörðun á staðarmörkum sveitarfélaga samvæmt ákvæði þessu í Stjórnartíðindum.``

Herra forseti. Þetta er sú brtt. sem ég mun biðja hv. félmn. að flytja.

Sú breyting er orðin frá fyrri útgáfu á bráðabirgðaákvæðinu að óbyggðanefnd, sem áformað er að setja á fót samkvæmt þjóðlendufrv., er fengið hlutverk sérstakrar fimm manna úrskurðarnefndar sem getið er um í frv. til sveitarstjórnarlaga, þ.e. að óbyggðanefndin bara yfirtekur það hlutverk sem sérstakri úrskurðarnefnd var ætlað að hafa með höndum. Að öðru leyti hefur þetta ekki efnisbreytingu í för með sér. En þetta tengir frumvörpin fastar saman þannig að lagalega er þetta heildstæðara svona þar sem vísað er beinlínis til þjóðlendufrv. í lagagerðinni.

Þetta vildi ég að kæmi fram strax við upphaf umræðunnar, herra forseti, til þess að forðast óþarfa málalengingar.