Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 11:29:11 (3440)

1998-02-05 11:29:11# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[11:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. að eins og málið liggur núna virkar það næsta einfalt, auðskiljanlegt og létt, sem er kostur við alla lagasetningu. En málatilbúnaðurinn, til að mynda fyrir Hæstarétti, í málum sem þetta varða hafa verið einhver allra stærstu og flóknustu mál sem fyrir réttinn hefur borið vegna þess að málið var afar flókið og snúið. Við finnum það reyndar jafnframt í þessum umræðum sem tengst hafa þessu frv. að enn eru miklar vangaveltur sem reyndar eiga kannski ekki allar beint við um þetta frv. Ég er ekki að finna að því að menn fari eitthvað örlítið út fyrir efnið, það kann að vera nauðsynlegt. Málið snerist um mjög mikla hagsmuni, stóra hluti og var flókið, en hinum vísu mönnum sem fengnir voru til verks hefur tekist mjög vel að finna málinu auðskiljanlegan og ágætan farveg.