Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 11:53:54 (3444)

1998-02-05 11:53:54# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., RA (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[11:53]

Ragnar Arnalds (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svarið og ég fagna því að hann tekur af skarið um að þjóðlendufrumvarpið nái einnig yfir orku í rennandi vatni þó að ekki sé sérstaklega getið um það í frv. Ég teldi að atriði af þessu tagi ætti að orða skýrt í frv. en ekki að það þyrfti að vera með neinar ágiskanir eða túlkanir á svo mikilvægum atriðum sem þessu. Engu að síður hlýtur yfirlýsing hæstv. forsrh. að skipta miklu máli í þessu samhengi.

Þetta minnir svo aftur á hitt sem ég hafði ekki tíma til að koma að hér áðan að auðvitað eru hnökrar á frv. og ég tel að þá þurfi að skoða betur. Ég hef ekki fulla sannfæringu fyrir því að forsrh. eigi að hafa það mikla vald sem hann hefur samkvæmt frv. Ég teldi að samstarfsnefndin sem er nefnd í frv. ætti að hafa meira vald og má skoða það nánar í nefnd.

Ég spyr hæstv. forsrh. hvort orðin ,,enginn má hafa afnot þjóðlendu fyrir sjálfan sig`` hafi nokkra sérstaka merkingu. Væri ekki eðlilegt að fella niður þessi orð þar sem þau virðast vera dálítið takmarkandi og gætu verið misvísandi að viðkomandi gæti haft þennan rétt ef það væri fyrir einhvern annan en hann? Þetta er í upphafi 3. gr. og ég held það væri líka gott að taka af skarið um að þarna megi lagfæra pennaglöp.