Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 12:12:12 (3447)

1998-02-05 12:12:12# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[12:12]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var aðeins út af því orðalagi sem hv. þm. notaði nokkrum sinnum í ræðu sinni, þ.e. að í smáa letri þessa frv. fælist eitt og annað. Nú er það þekkt að menn hafa stundum á tilfinningunni að tryggingafélög og slíkir aðilar um víða veröld sem bjóða mönnum gull og græna skóga, takmarki tilboð sín með afar smáu letri sem fólk rekur ekki augun í fyrr en það þarf að vitja réttar síns. (Gripið fram í: Á þá forsrh. við FÍB?) Ég er eingöngu að segja það, hv. þm., við þá sem fylgjast með umræðunni en hafa ekki frv. við höndina, að frv. er allt prentað með sama letri. Það er ekkert smátt letur hér sem notað er til þess að draga úr meginákvæðum frv. Frv. skýrir sig afar vel sjálft og er sjálfu sér samkvæmt og það er ekki verið að koma aftan að neinni meginhugsun frv. á þann hátt sem hv. þm. lýsti hér. Ég veit að hún var ekki að meina þetta bókstaflega en það gat litið þannig út gagnvart þeim sem hér fylgjast með að verið væri að lauma einu eða öðru inn í frv.

Í annan stað vil ég nefna og árétta að með þjóðlendufrv. er í meginatriðum verið að höggva á það vandamál að skort hefur, að mati dómstóla landsins, fullnægjandi eignarréttarheimildir á víðtækum svæðum landsins. Menn eru að höggva á þann hnút með þessu frv. Frv. byggir síðan á því að til staðar sé tiltekin sveitarstjórnarleg skipting í landinu. En frv. byggir ekki á því hvernig sú skipting er. Menn eiga því að samþykkja þetta frv. Síðan er hægt, í öðru frv., að takast á um þá skiptingu sem þarf að vera fyrir hendi með einum eða öðrum hætti