Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 12:14:11 (3448)

1998-02-05 12:14:11# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[12:14]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég uni ágætlega við það að forsrh. komi í ræðustól til að undirstrika það að í frv. er ekki allt í einu vikið yfir í örsmátt letur. Það er hárrétt. Og þegar ég tala um að í smáa letrinu sé að finna annan anda en þann sem er í frv., þá er ég ekki í bókstaflegri merkingu að tala um smátt letur.

Eftirfarandi setning er úr 3. gr. frv.: ,,Til að nýta land og landsréttindi innan þjóðlendu að öðru leyti en greinir í 2. mgr. þarf leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar.`` Þessi setning er án nánari skýringa og án útfærslu á því við hvaða sveitarstjórnir er átt. Er átt við að leyfi allra sveitarstjórna á landinu þurfi, líka Reykjavíkur og Kópavogs, eða aðeins sveitarstjórna sem liggja að ákveðnum svæðum? Ég var því að segja, eins og maður segir oft: ,,Æ, það var í smáa letrinu.`` Þ.e. eitthvað sem maður víkur ekki nægilega að af því að það brýtur í bága við heildarhugsunina.

[12:15]

Heildarhugsunin í frv. er feikilega góð. Í 2. gr. segir:

,,Íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.

Forsætisráðherra fer með málefni þjóðlendna sem ekki eru lögð til annarra ráðuneyta með lögum.``

Í frv. þessu eru afar góð ákvæði sem við jafnaðarmenn tökum undir og það að ganga loksins frá einkaréttarheimildum og þeim óljósu málum sem hafa verið tilefni deilna um áratuga skeið er mjög mikilvægt. Ég vildi óska að við hefðum gert það fyrir 20--30 árum vegna þess sem á eftir hefur komið. En engu að síður segi ég: Þetta er afskaplega mikilvægt frv. og tók það fram í ræðu minni að sennilega væri þetta ekki aðeins mikilvægasta frv. þessa þings heldur liðinna ára. Svo stórt tók ég upp í mig, virðulegi forseti.