Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 12:16:28 (3449)

1998-02-05 12:16:28# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[12:16]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Þegar taka þarf ákvarðanir og gera ráðstafanir á tilteknum svæðum, ég tala nú ekki um framkvæmdir og ráðstafanir sem deilur eru um, þá þarf tvennt að liggja fyrir. Hvaða stjórnvald á að fjalla um málið og hver fari með eigendaforræði. Á þetta hefur skort hvað varðar eigendaforræðið á hálendinu til að mynda, á þeim svæðum sem við viljum nú kalla þjóðlendur með þessu frv. og við verðum að bæta úr þeim skorti.

Til þess að hitt atriðið sé í lagi þarf að skipa þeim málum þannig að sveitarstjórnarþátturinn komist að. Þeim þætti er skipað með öðru frv. Ég tel ekki að ágreiningur um þann þátt eigi að verða til að þetta mál tefjist eða verði tekið í gíslingu með vísan til þess að menn séu ekki sáttir við þá skiptingu sem þar á sér stað. Það er annað deiluefni.