Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 12:18:51 (3451)

1998-02-05 12:18:51# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[12:18]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það getur verið nokkuð vandlifað og minni manna nær misjafnlega langt aftur. Það er kostur að hafa hér á þingi þingmenn sem setið hafa áratugi eins og fram kom í máli eins hv. þm. áðan. Mér finnst að minni Alþfl. í sambandi við mál sem nýlega hafa verið rædd hér á þingi og ákvörðuð nái harla skammt. Án þess að reyna að ýfa upp einhverjar deilur hér, þá finnst mér óhjákvæmilegt að nefna það.

Hér var, að frumkvæði ráðherra Alþfl. 1992, flutt frv. til breytinga á skipulagslögum sem markaði þann farveg um skipulagsmál miðhálendisins sem unnið hefur verið eftir síðan. Það var hæstv. þáv. umhvrh. Eiður Guðnason sem bar frv. fram. Það var samþykkt og hæstv. umhvrh. Össur Skarphéðinsson kom einnig að því máli. Alþfl. hefur líka verið þátttakandi í að setja ný skipulags- og byggingarlög hér á þinginu sem voru afgreidd sl. vor þar sem landinu er sannanlega skipt milli sveitarfélaga og gert er ráð fyrir ákveðinni svæðisskipulagsmeðferð. Það bráðabirgðaákvæði sem samþykkt var, líklega 1993 eða 1994, varðandi þetta svæðisskipulag miðhálendisins, gekk inn í þessa löggjöf. Sú löggjöf sem við samþykktum einróma á Alþingi í fyrravor tekur við þessari vinnu varðandi svæðisskipulag miðhálendisins. Þó ég hefði á sínum tíma kosið það og full samstaða hafi verið með talsmönnum Alþfl. 1990 auk þess að hæstv. þáv. ráðherra Eiður Guðnason reyndi að fylgja eftir tillögu um miðhálendið sem sjálfstæða stjórnsýslueiningu, þá náði það mál ekki fram og því var brugðið á annað ráð fyrir frumkvæði ráðherra Alþfl.