Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 12:25:42 (3454)

1998-02-05 12:25:42# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[12:25]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka pirringi þingmannsins, sessunautar míns, út í þingflokk jafnaðarmanna með jafnaðargeði. Einnig ætla ég, virðulegi forseti, að breyta orðum mínum og segja að Alþingi felldi ekki tillögu umhvrh. Eiðs Guðnasonar. Tillaga Eiðs Guðnasonar umhvrh. strandaði á pólitískri andstöðu á Alþingi Íslendinga. Sú tillaga var um að miðhálendið yrði eitt afmarkað stjórnsýslusvæði. Nú hef ég leiðrétt það, virðulegi forseti, og þessi orð mín eru síst verri en hin fyrri.

Hins vegar hefur þingflokkur jafnaðarmanna, þingmenn Alþfl., enga ákvörðun tekið um það að skipa skuli hálendinu upp í sveitarfélög. Það er rangt. Og við erum ekki með billegan eða ósæmilegan málflutning. Við erum með heiðarlegan málflutning í þessu máli eins og við höfum alltaf haft. Það var ekkert, virðulegi forseti, í þeim forsendum sem lagðar voru til grundvallar vinnu svæðisskipulagsins sem gaf til kynna að það ætti að skipta hálendinu milli sveitarfélaga.

Málflutningur okkar hefur verið góður. Við viljum styðja framgang þjóðlendufrv. Það er gott mál, það er sterkt, það er stórt mál og mikilvægt. Á því er sá annmarki að það opnar fyrir sveitarfélagafrv. Páls Péturssonar með einni setningu í 3. gr. og það er það eina sem setur höft á okkur þingmenn jafnaðarmanna.