Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 13:59:52 (3463)

1998-02-05 13:59:52# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[13:59]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Að því er snýr að hæfi þeirra sem mega skipa sæti í óbyggðanefndinni, þá er það skýrt í greinargerðinni hvers vegna þessi hæfisskilyrði eru gerð. Að öðru leyti mundu slíkir aðilar lúta almennum vanhæfisreglum þannig að ef þeir tækju þátt í meðferð mála eru þeir vanhæfir til að taka þátt í framgangi málsins ef það gengi síðan til dómstóla síðar.

[14:00]

Vegna þess sem hv. þm. vék síðan að í 2. mgr. 3. gr., þá svarar hún því vandamáli sem orkumálastjóri virðist hafa haft áhyggjur af. Hv. þm. nefndi það og reyndar nefndi hv. þm. Sighvatur Björgvinsson áður að tugir sveitarfélaga þyrftu að koma að málum þegar þannig stæði á. Þessi grein setur undir þann leka og tryggir að slík mál gætu fengið framgang án þess að lenda í misvísandi niðurstöðum hinna fjölmörgu sveitarfélaga.

Í þriðja lagi er spurt um atriði sem reyndar tilheyra frekar umræðunni um sveitarstjórnarfrv. Spurt er um hvort það sé rétt mat hjá hæstv. félmrh. að nú þegar liggi fyrir mörkun á stjórnsýslu sveitarfélaga á meginhluta landsins ef frá eru taldir jöklar og hugsanlega einhver svæði án afréttarskilyrða vegna nýtingarleysis um áratuga skeið. Í mínum huga leikur enginn vafi á því að sú regla sem sett var í lög með lögum 52/1972 tekur af öll tvímæli um þetta efni. Hæstv. félmrh. fer því vissulega með rétt mál í þeim efnum. Menn verða að átta sig á því að frv. um þjóðlendur er í raun ekkert bundið af þessum þætti. Ef þingið kysi nú eða síðar að koma sveitarstjórnarskipuninni og takmörkununum fyrir með öðrum hætti, þá mundi það ekki hafa nein áhrif á þjóðlendufrv. eða þjóðlendulög. Þjóðlendufrv. byggir hins vegar á því að sveitarstjórnarlegt vald sé til staðar á svæðinu og við höfum lagt áherslu á það.