Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:02:21 (3464)

1998-02-05 14:02:21# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:02]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Varðandi óbyggðanefndina er ljóst að héraðsdómarar lúta almennum vanhæfisreglum ef þeir eiga sæti í nefndinni og ættu síðan að dæma í málefnum sem fara til dómstólanna. Ég held að við ættum að reyna að framfylgja þeirri reglu að héraðsdómarar sitji ekki í nefndum á vegum framkvæmdarvaldsins sem hafi úrskurðarvald.

En það sem hæstv. forsrh. sagði hér áðan veldur mér vissulega vonbrigðum. Ég túlka orð hans svo að hann telji ekkert athugavert við að sveitarfélögin hafi stjórnsýsluvald á öllu miðhálendinu. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Er það hans skoðun, ef frv. félmrh. verður samþykkt og þjóðlendufrv., að þá hafi ráðherrar rétt og geti staðfest það skipulag sem núna er í vinnslu og á lokastigi varðandi miðhálendið? Ég hef gagnrýnt það hér og teldi stórslys í þessu máli að fara út í skipulag á miðhálendinu án þess að fyrir liggi stefnumótun í stórum málaflokkum eins og ég nefndi hér áðan. Spurningar mínar til forsrh. eru því þessar:

Telur hann að ef frv. félmrh. nær fram að ganga, þá hafi Alþingi gefið ráðherrum umboð og það skipulag sem nú liggur fyrir og verið er að vinna varðandi hálendið hafi þar með fengið lagastoð?