Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:04:03 (3465)

1998-02-05 14:04:03# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:04]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Sú regla sem ég vitnaði til og kom inn í lögin 1972 hljóðar þannig:

,,Afréttarsvæði, sem ekki hefur þegar verið skipað innan staðarmarka neins sveitarfélags, skal teljast til þess sveitarfélags, sem þar á eignar- eða afnotarétt. Ef fleiri en eitt sveitarfélag eiga aðild að slíku landi og ekki er samkomulag um hverju þeirra það skuli heyra sker félmrn. úr.``

Í dag hljómar þessi klásúla svona:

,,Nú eiga íbúar tiltekins sveitarfélags upprekstrarrétt í afrétt sem ekki hefur verið skipað innan staðarmarka neins sveitarfélags og skal hann þá teljast til þess sveitarfélags. Ef íbúar fleiri en eins sveitarfélags eiga upprekstrarrétt í afréttinn og ekki næst samkomulag um til hvers þeirra hann skuli teljast sker ráðuneytið úr.``

Þetta er eins og félmrh. hefur skýrt það og hans skilningur á því er réttur. Ég ætla ekki að fara að skera úr um einstök önnur atriði en ég bendi á að þeir þættir sem þurfa að vera til staðar með sveitarstjórnarlegu valdi eftir að lögin liggja fyrir, verða þá til staðar. Ég ítreka á nýjan leik að það er áfram hægt, þrátt fyrir þjóðlendufrv., að skipa sveitarlegu þáttunum hvernig sem menn vilja. Menn gætu til að mynda, þjóðlendufrv. breytir því ekkert, tekið allan skipulagsþáttinn undan. Það höfum við gert áður. Það höfum við gert t.d. varðandi varnarsvæðið í Keflavík. Þar eru svæði tekin undan, óháð því hvernig því er almennt skipað í landinu.