Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:06:55 (3467)

1998-02-05 14:06:55# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:06]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef áhyggjur af því hvernig hv. þm. Alþfl. eða þingflokks jafnaðarmanna réttara sagt koma inn í þessa umræðu að því er varðar skipulagsmál miðhálendisins. Það er satt að segja með ólíkindum en hv. þm. virðast ætla sér að stöðva framgang þessa frv. eða vinnu að þessu frv. með vísan til þess að ekki hafi verið unnið að skipulagsmálum miðhálendisins eins og þeim þykir rétt vera. Ég veit ekki betur en hv. síðasti ræðumaður hafi verið ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem bar fram stjórnarfrv. um breytingu á skipulagslögum sem er grundvöllurinn að þeirri vinnu sem síðan hefur farið fram. Það gekk síðan inn í skipulagslöggjöfina, löggjöf um skipulag- og byggingarmál, sem allir viðstaddir alþm. samþykktu hér sl. vor og e.t.v. viðkomandi þingmaður líka.

Hv. þm. ætti að kynna sér þá greinargerð sem ráðherra Alþfl. lagði fram með þessari tillögu þar sem þetta er beinlínis rökstutt með því að ekki hafi verið hljómgrunnur fyrir þeirri tillögu sem upphaflega var lögð fyrir. Ég var m.a. einn af meðhöfundum þeirrar tillögu um sérstakt stjórnsýslusvæði. En vegna þess að það fékk ekki hljómgrunn var brugðið á annað ráð og síðan hefur verið unnið samkvæmt því.

Ætli það sé skynsamlegt, virðulegur forseti, að hverfa frá því vinnuferli sem hefur verið í gangi og setja þau mál í uppnám, hver veit í hve langan tíma, vegna þess að menn kjósi að í fortíðinni hefði verið unnið með allt öðrum hætti, rannsóknarvinnu o.s.frv? Af hverju lagði Alþfl., ráðherrar hans og þingmenn, það ekki til á sínum tíma? Hvaða samhengi er hér á milli orða og athafna? Þetta er ekki boðlegt, virðulegur forseti.