Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:09:18 (3468)

1998-02-05 14:09:18# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:09]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vænti þess að síðasti ræðumaður hafi fylgst með þeirri umræðu sem fram hefur farið hér í morgun. Við erum svo sannarlega ekki að stöðva framkvæmd þess frv. sem hér er til umræðu. Við höfum þvert á móti lýst stuðningi við frv. En við höfum gagnrýnt frv. félmrh. með réttu. Og af því að vísað hefur verið í ákvæði til bráðabirgða varðandi samvinnunefndina þá vil ég undirstrika að með því var ekki tekin ákvörðun um stjórnsýsluvald á miðhálendinu. Ég vil líka vitna í það sem fram kemur í frv. til laga sem Eiður Guðnason, þáv. umhvrh., flutti um stjórn skipulags- og byggingarmála á miðhálendi Íslands. Þar segir hann orðrétt, með leyfi forseta:

,,Til þess að bæta úr því ástandi sem nú er í skipulags- og byggingarmálum kom fram fyrir nokkru sú hugmynd að framlengja mörk sveitarfélaga sem að hálendinu liggja þannig að landinu yrði öllu skipt í sveitarfélög. Þessi hugmynd virðist tæplega raunhæf`` stendur hér. Það hefur varla verið skoðun hæstv. umhvrh. þá að rétt væri að hafa stjórnsýsluvaldið allt í höndum sveitarfélaga.

Og mér heyrist, og það veldur mér miklum áhyggjum, af orðum síðasta ræðumanns að hann sé sammála því að hæstv. félmrh. fái lagastoð til að samþykkja það stórslys sem þær tillögur sem nú liggja fyrir um miðhálendið eru. Er síðasti ræðumaður, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, að leggja blessun sína yfir þessa tillögu? Ég gat ekki heyrt betur á hans orðum.