Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:13:24 (3470)

1998-02-05 14:13:24# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:13]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég veit ekki hvers vegna hv. þm. er svona hornóttur. Eina skýringin sem ég hef á því er að sameiningarferli jafnaðarmanna er á miklum skriði og ég las grein hans í morgun sem kannski er einhver skýring á þessu. En auðvitað veit ég að hv. þm. hlýtur að athuguðu máli að styðja okkur jafnaðarmenn í að stöðva frv. félmrh. enda hefur hann sjálfur gert athugasemdir á tíu blaðsíðum við þær tillögur sem liggja fyrir að miðhálendisskipulagi. Auðvitað verður það stórslys ef frv. félmrh. verður til þess að framkvæmdarvaldið geti bara samþykkt þessar tillögur. Og að nokkrir aðilar sem að þessu skipulagi standa marki stefnu fyrir Alþingi í stórum málaflokkum eins og uhverfismálum sem ég veit að hv. þm. vill hafa áhrif á, náttúruverndarmálum, samgöngumálum, orkumálum o.s.frv. Auðvitað verður það raunin ef við samþykkjum þetta frv. félmrh. Ég er ekki viss um að allir hv. þm. hafi áttað sig á því hvaða stórslys yrði ef við samþykktum frv. hæstv. félmrh. Og það er lykilatriðið í þessu máli.