Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:35:44 (3478)

1998-02-05 14:35:44# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:35]

Siv Friðleifsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég skil svar hæstv. forsrh. þannig að hann telji að ekki komi til greina að taka skipulags- og byggingarmál miðhálendisins út fyrir sviga eins og gert er með varnarsvæðin í Keflavík og það hryggir mig.

Varðandi Hveravelli kemur fram í svari að samstarfsnefndin, sem verður undir forsrh., mundi gefa ráðgjöf, t.d. um uppbyggingu þjónustuskála á Hveravöllum. Það er gott og vel. Hins vegar spyr ég hæstv. forsrh.: Er líklegt að sú samstarfsnefnd hafni beiðni Svínavatnshrepps sem er t.d. búinn að skipuleggja þar þjónustuskála? Er ekki slík samstarfsnefnd í afar þröngri stöðu vegna þess að aðalvaldið þegar menn búa til skipulagstillögu er falið á þeim stað þar sem tillagan verður til? Eins og við sjáum með svæðisskipulagið á miðhálendinu er samvinnunefndin skipuð 13 fulltrúum. Það eru fulltrúar 12 sýslna sem liggja þarna á miðhálendinu, allt karlmenn á svipuðum aldri með sama bakgrunn. Það er ákveðið vald sem felst í því. En aðalvaldið liggur hjá landslagsarkitektastofunni Landsmótun sem semur tillöguna ásamt nefndinni. Þar er að mínu mati hin faglega þekking og aðalvaldið þannig að ég spyr aftur hvort líklegt sé að samstarfsnefndin um þjóðlendurnar hafni tillögum sveitarfélags um skipulagsmál.