Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 14:42:50 (3482)

1998-02-05 14:42:50# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[14:42]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. mjög skýrt og hreinskilið svar. Hæstv. félmrh. hefur sem sé ekki kynnt þingmönnum Framsfl. þá breytingu sem hann kynnti fyrir Alþingi rétt áðan þannig að þingflokkur Framsfl. hefur þá ekki tekið afstöðu til tillögu hennar.

Miklu merkara var þó að það kom fram sem ég raunar vissi, að vísu ekki fyrr en eftir þá umræðu, að það var ekki rétt sem hæstv. félmrh. upplýsti Alþingi um í umræðum um frv. fyrir jólin að aðeins einn þingmaður Framsfl. hefði fyrirvara um þá afstöðu sem kemur fram í frv. til hálendismálanna. Mér er nær að halda að þeir séu ekki bara fjórir eins og kom fram í máli hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur áðan heldur fimm. Það er eðlilegt frá sjónarmiði hæstv. félmrh. að hann hafi ekki svarað rétt um afstöðu samflokksmanna sinna til frv. fyrir jólin en það er óskiljanlegt frá sjónarmiði samstarfsmanna hans í þingflokknum að hann skuli ekki hafa getið þess að það eru fleiri en hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sem hafa fyrirvara við tillöguflutningi hans.