Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 15:04:11 (3490)

1998-02-05 15:04:11# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:04]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ja, það er aldeilis að hv. þm. er hornóttur í dag. Málið er það að ég er alls ekki hlynntur konungsvaldi, langt í frá. Ég minni á það að einn ágætur konungur sagði: Ríkið, það er ég. Það var hvorki meira né minna. Og ég er nefnilega akkúrat á móti ríkisvaldinu. (Gripið fram í.) Nei, langt því frá. Ég er alls ekki hlynntur forréttindum aðalsmanna frekar en kvótaeigenda. Ég er að verja einstaklinginn fyrir ágangi ríkisins. Ég er að verja einstaklinginn sem hefur lent á þessari öld, sem á fyrri öldum, undir ofurhæl ríkisvaldsins. Ég minni á stöðu einstaklingsins í Sovétríkjunum hinum liðnu og fornu, sem byggðu á samhjálp en í skjóli samhjálpar sölsuðu allt undir ríkið og virtu einstaklinginn einskis. Það er því ekki bara út í bláinn sem ég óttast ríkið. Ég er ekki fjandsamlegur ríkinu en ég óttast það fyrir hönd einstaklingsins.

Ég hef þá lífsskoðun að eignir séu betur geymdar í eigu einstaklinga en í eigu fulltrúa ríkisvaldsins. Ég held að einstaklingurinn fari ætíð betur með eignir en einhverjir fulltrúar sem eiga ekki eignirnar en fara með þær fyrir hönd ríkisins. Það er í sívaxandi mæli sem einstaklingar fara með í gífurleg völd og eignir en eiga ekkert í því sjálfir.