Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 15:06:22 (3491)

1998-02-05 15:06:22# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[15:06]

Ólafur Örn Haraldsson:

Herra forseti. Eins og aðrir þingmenn ræði ég um frv. til laga um þjóðlendur. Það er tímabært að þetta frv. kemur fram og ef það verður að lögum og kemur til framkvæmda verður eytt þeirri miklu óvissu sem ríkt hefur um eignarrétt á stórum svæðum landsins. Þessi svæði eru á hálendinu og óvissan hefur leitt til þess að víða hafa sprottið af deilur, vaxandi deilur, þær hafa ekki aðeins komið fram í þinginu heldur hafa þær snert atvinnurekstur í landinu og þær hafa snert tómstundir og lífsskoðanir og lífsviðhorf margra sem stunda veiðar og tómstundir á hálendinu. Það er því afar mikilvægt að það frv. sem liggur fyrir fái farsæla og skjóta meðferð í þinginu og verði að lögum.

Margt hefur verið reynt til að leysa þá óvissu sem ríkt hefur en þrautalendingin hefur gjarnan orðið sú að leitað hefur verið til dómstóla. Dómstólar hafa fellt þá úrskurði sem við þekkjum allt frá 1955 þar sem komið hefur í ljós að hálendið er ekki eign sveitarfélaganna sem hafa haft þar hinar hefðbundnu nytjar um aldaraðir heldur er landið einskismannseign og við það höfum við orðið að búa.

Þó að það sé að mörgu leyti heillandi sýn að land geti verið einskismannsland og um leið að veita þegnum mikil réttindi til umferðar og aðgangs að því landi dugir hún ekki lengur. Umferð og nytjar hálendisins til ánægju og atvinnurekstrar eru orðnar það miklar að við getum ekki við svo búið. Þessar nytjar eru ekki eingöngu hinar hefðbundnu sem fylgt hafa upprekstri og tengjast landbúnaði, þær nytjar hafa dregist saman en í stað þess hefur hálendið, vil ég fullyrða, verið nytjað meira en nokkru sinni áður. Það er nytjað af fólki til atvinnurekstrar í ferðamennsku og það er nytjað til tómstunda. Þess vegna hafna ég alfarið þeirri skilgreiningu sem hefur oft komið fram að aðeins þau sveitarfélög sem hagsmuna eiga að gæta eigi að koma nálægt málinu án þess að ég vilji fara að taka upp umræðuna um hálendisnefndina.

En hvar er sá atvinnurekstur sem hefur hagsmuna að gæta á hálendinu? Er sá atvinnurekstur ekki einmitt í þéttbýlinu, er það ekki ferðamennskan sem aflar gjaldeyris í stórum stíl og eru þau fyrirtæki ekki rekin í höfuðborginni, nálægum sveitarfélögum og þéttbýli um allt land? Þetta er hin breytta mynd, hinn breytti búskapur sem við búum við og þar við bætast þær tómstundir sem ég minntist á og eru mönnum æ meira virði en áður. Nú þykir sjálfsagt að fólk fari yfir landið á örskömmum tíma, menn finna til væntumþykju og virðingar fyrir landinu og þær tilfinningar og þeir hagsmunir eru ekki minna virði en hinir fornu og hefðbundnu hagsmunir.

Að sjálfsögðu þarf að leiða þetta ferli allt í gegnum þessa breytingatíma með farsælu samkomulagi þar sem ekki er níðst á þeim sem hinar fornu nytjar höfðu um leið og rýmt er fyrir nýjungum sem eru sjálfsagðar í landi okkar.

Frv. er því tímabært. Ég fagna því hversu vel það er unnið og vandað enda kemur fram í meginmáli allra þingmanna sem hafa talað, vil ég telja, að frv. sé vel úr garði gert og forsrh. hefur fært það fram með vönduðum málflutningi. Frv. viðurkennir ekki eingöngu eignarréttinn sem við langflest teljum eitt af grundvallaratriðum þjóðfélags okkar, heldur skýrir það einnig eignarréttinn með þeim vinnubrögðum sem frv. er ætlað að koma til framkvæmda. Stuðningur minn við frv. er þar af leiðandi afdráttarlaus þó að ég lýsi að sjálfsögðu yfir fyrirvara um einstök efnisatriði sem betur mega fara og verða tekin fyrir í nefnd. Ég vil eiga þar tillögurétt eftir því sem frv. nær fram, hvort heldur það verður eins og fyrirhugað er í hefðbundinni nefnd eða í sérnefnd eins og sumir hafa lagt til enda þótt ég sé ekki að flytja þá tillögu hér. Ég tel að frv. sé til þess fallið að tryggja rétt almennings í landinu. Almenningur á sinn rétt vegna hagsmuna, fjárhagslegra, eignalegra og atvinnulegra og vegna tilfinningalegra hagsmuna. Sá almenningur er einmitt í þéttbýlinu, ekki síst í höfuðborginni og öðrum nálægum þéttbýlisstöðum en sá almenningur hefur með réttu verið nokkuð uggandi síðari ár að þessir vaxandi hagsmunir á hálendinu verði fyrir borð bornir ef ekki verður skorið úr um þessi atriði sem eru til umfjöllunar.

Það er fyllilega í samræmi við vitund og viðhorf almennings á Íslandi að eignarrétturinn verði skýrður og afdráttarlaust fenginn ríkinu. Ríkið er sá eini aðili sem ég sé tiltækan til þess að gæta þessara hagsmuna. Við sjáum það á mörgum öðrum sviðum, með fullri virðingu fyrir þeim skoðunum sem komu fram hjá hv. þm. Pétri Blöndal.

Ég tel mikilvægt að þetta frv. fái framgang án þess að við þurfum að hnýta önnur mál þar við. Þess vegna tel ég mikilvæga yfirlýsingu og orð forsrh. sem hann lét áðan koma fram um sjálfstæði þessa frv. þó að það hljóti að sjálfsögðu að verða að skoðast með hliðsjón af öðrum málum sem liggja fyrir.