Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 16:34:23 (3511)

1998-02-05 16:34:23# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:34]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Vegna þess síðasta sem hv. þm. nefndi vek ég athygli á því að gert er ráð fyrir mjög hóflegum --- nú held ég að hv. þm. sé ekki að hlusta, ég hef skamman tíma. Ef þingmaðurinn sem bað um svar vildi hlusta. --- Vegna þess sem hann nefndi sérstaklega vek ég athygli á því að um er að ræða mjög hóflega gjaldtöku eins og þarna er stefnt að og jafnframt er mjög skýrt tekið fram til hvaða þátta þessar tekjur skulu ganga. Þær eru afmarkaðar og vel skýrðar í frv.

Vegna tillögu um að þau þrjú mál sem hafa verið tengd saman verði vísað til sömu nefndar, hef ég eftir nokkra umhugsun um það og eftir að hafa borið mig saman við hæstv. félmrh., finnst mér það óheppilegt vegna þess að þó að málin tengist að hluta til, til að mynda í gegnum þetta bráðabirgðaákvæði, eru þessi þrjú mál að meginefni til að mörgu leyti mjög ólík og fjalla um ólíka þætti. Ég held þess vegna að það verði ekki til framdráttar málunum að þau gengu öll til einnar nefndar.

Þá hlýt ég einnig að vekja athygli á því að frv. hæstv. félmrh., sveitarstjórnarlögin, er þegar komið til nefndar. Þá var þess getið að ósk að frv. um þjóðlendur yrði flutt og við þær aðstæður kom engin ósk fram um að þess yrði gætt að þessi mál færu saman og ættu samflot til nefndar. Mér finnst það því ekki heppileg lausn og vildi svara þessu hér meðan hv. þm. getur brugðist við.