Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 16:38:14 (3513)

1998-02-05 16:38:14# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:38]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þm. sé kominn á vafasama braut í þessum umræðum. Menn eru ekki að gera ráð fyrir því að forsrh. fari með vísun til þessara heimilda að leigja út virkjanir eða stórfljót eða þess háttar. Lögin gefa ekki tilefni til þess. Á hinn bóginn var vakin athygli á því í upphafsræðu að ekki væri gert ráð fyrir öðru en lágum gjöldum sem ættu að ganga til þeirra hluta sem þarna er um að ræða, til þjóðlendnanna sjálfra. Þarna væru menn ekki að hugsa um auðlindaskatt, skatttekjur sem gengju til ríkissjóðs. Þetta er allt saman skýrt bæði í ræðu minni og í greinargerðinni þannig að þetta er ljóst.

Varðandi hitt atriðið þá var ég ekki viðstaddur og bið forláts á því að hv. þm. hafi mælst til þess að málið gengi til sömu nefndar þá hefur Alþingi tekið afstöðu til þess því að ljóst var að þjóðlendufrv. mundi aldrei ganga til félmn. Þá hefur Alþingi tekið afstöðu til þeirrar beiðni og því er óþarft að fara að taka aðra afstöðu öndverða þeirri.