Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 16:39:24 (3514)

1998-02-05 16:39:24# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:39]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekkert óeðlilegt við það og ekkert sem kemur í veg fyrir að ein og sama nefnd geti fjallað um þessi mál. Það þarf ekki annað en hv. félmn. óski eftir því að sú nefnd gefi umsögn sína eða fjalli um það ákvæði til bráðabirgða sem hér er rætt um. Annað er ég ekki að biðja um en það að ein og sama nefnd fjalli um þjóðlendufrv. og frv. sem fer ... (Gripið fram í.) Nákvæmlega.

Um hitt er það að segja að það er ekkert óeðlilegt við það og ég bið menn enn að hafa það í minni að ég er ekki að tala um þann einstakling sem situr í forsætisráðherrastólnum í dag heldur forsætisráðherraembættið sem slíkt. Það er ekkert óeðlilegt við að forsrh. sem fer með eignarráðin fyrir hönd þjóðarinnar á þjóðlendum hafi heimild til að semja við aðila um takmörkuð not, um greiðslur fyrir að reisa ferðamannaaðstöðu eða eitthvað svoleiðis. En það er mjög óeðlilegt að gert sé ráð fyrir því í lögum að þessi einstaklingur hafi heimild til þess án nokkurra málsmeðferðarreglna að ganga eins og gert er ráð fyrir í frv. til samninga um endurgjald fyrir nýtingu réttinda sem íslenska ríkið eignast samkvæmt 2. gr. og eru hvers konar landsréttindi og hlunnindi í þjóðlendum Íslands, þar á meðal virkjanaréttur stórfallvatna og jarðhita. Enginn greinarmunur er gerður á því í frv. og ég segi: Ég efa að það standist þá venju sem við höfum í dag að afhenda ráðherra, sama hver hann er, slíkan rétt til gjaldtöku fyrir jafnverðmæt réttindi án sérstakra lagaheimilda þar um þar sem ákveðnar málsmeðferðarreglur eru settar í samræmi við eðli málsins.