Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 16:45:40 (3517)

1998-02-05 16:45:40# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:45]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil árétta að ég tel brýnt að koma skikki á hver fari með skipulagsmál á hálendinu en það er óljóst eins og sakir standa. Svo mörg mál og stór eru óleyst í svæðisskipulagi miðhálendisins að þar verður að fara saman ákvörðun um það hver fari með skipulagsstjórnina og hver fari með sveitarstjórnarmálin eða þann hluta af stjórnvaldsákvörðunum. Í raun er það alveg óskylt ákvæðum um eignarrétt og að því leyti óskylt meginefni þjóðlendufrv. Menn hafa stundum blandað saman skipulagsmálunum og stjórnskipunarvaldinu á svæðinu annars vegar og eignarréttinum hins vegar. Hér er ekki tími til að gera því ítarleg skil. En þetta vildi ég hafa alveg skýrt af minni hálfu. Það er mjög brýnt að koma á skipulagi um stjórnskipunarvaldið þar með talið skipulagsmálin og eins er brýnt að það fari saman við staðfestinguna á svæðisskipulaginu.