Þjóðlendur

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 16:48:48 (3519)

1998-02-05 16:48:48# 122. lþ. 60.2 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv., ÁE
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[16:48]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Þjóðlendufrv. sem við ræðum hér er í meginatriðum byggt á þeirri stefnu sem Alþfl. hefur fylgt um áratuga skeið. Við höfum í meginatriðum lýst yfir stuðningi við í frv. umræðunni. Það bætir úr réttaróvissu og er að því leyti nauðsyn.

Meginatriði frv. er að íslenska ríkið er lýst eigandi að landi utan einkaeignar og sérstök óbyggðanefnd er sett á laggirnar til að skera úr um mörk þjóðlendna og eignarlanda. Þetta eru skynsamlegar aðferðir að mín mati. Það má árétta að ef menn vilja ekki hlíta úrskurði óbyggðanefndar, hafa menn þann rétt að fara fyrir almenna dómstóla þannig að mér sýnist þetta atriði vel úr garði gert.

Hins vegar er mjög mikilvægt að þetta mál sé skoðað í víðara samhengi eins og gert hefur verið í umræðunni að hluta. Þó hér sé tekist á um eignarhald á þjóðlendum eða landi utan eignarréttar eru fjölmörg önnur álitamál sem koma þar upp. Í umræðunni höfum við heyrt spurningar og ýmiss konar vafamál varðandi skipulagsmál. Fleiri þættir í öðrum frumvörpum tengjast þessu. Ég vil þar einkum benda á þau tvö frumvörp sem þingflokkur jafnaðarmanna hefur flutt ásamt öðrum, þ.e. um eignarhald á auðlindum í jörðu og virkjunarrétt fallvatna þar sem mótuð er afdráttarlaus stefna.

Ég styð eindregið þá ósk sem komið hefur fram um að frv. um þjóðlendur fari í sérnefnd. Ég styð að kosin verði sérnefnd og hún fjalli þá einnig um önnur mál sem tengjast þessu og hafa ekki þegar gengið til nefnda. Þar á meðal eru nokkur frumvörp borin fram af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni, hv. þm. Ragnari Arnalds auk frumvarpa sem ég nefndi að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er 1. flm. að. Ég teldi skynsamlegt að þessi mál væru skoðuð í samhengi. Eins og hæstv. forsrh. vék að væri vitaskuld auðvelt að leita umsagnar í annarri sérnefnd um það mál sem þegar er í félmn. Þetta er vitaskuld vinnuregla sem þingið sjálft verður að ákveða og ég á fastlega von á því að forseti muni hafa forgöngu um að finna þessu máli góðan farveg. Mér sýnist á ýmsu að margir telji skynsamlegt að fjalla um þetta í sérnefnd. Ég bendi á að á síðasta þingi afgreiddum við mjög merkilegt frv. um fjárreiður ríkisins. Þá var kosin sérnefnd til að fjalla sérstaklega um málið. Þetta er stærsta málið sem við komum til með að fjalla um núna á vorþingi.

Við sjáum að ýmis atriði sem hafa verið óljós í tengslum við þetta frv. gera það að verkum að mikilvægt er að vanda til þinglegrar vinnu við þetta. Þó nokkuð sé á huldu hverjir styðja einn hluta þessa máls eins og rakið var fyrr í dag og þó að ég vilji ekki gera það neitt hér meira að umtalsefni, þá held ég að það sé stuðningur við þá málsmeðferð að menn taki sér góðan tíma í málin.

Þó í þjóðlendufrv. sé kveðið á um að forræði málsins sé á höndum forsrh. gæti það vitaskuld verið álitaefni. Á það að vera forsrh. eða annar ráðherra, umhvrh., sem fer með þá þætti? Vitaskuld er þetta álitaefni. Við höfum rætt um það áður á hinu háa Alþingi hvort skynsamlegt gæti verið að stofnsetja annaðhvort sérstakt ráðuneyti eða sérstakt stjórnvald innan ráðuneytis, sérstaka skrifstofu sem færi með málefni sameiginlegra auðlinda hvort sem það eru auðlindir á miðhálendi eða til sjávar. Þetta er vitaskuld þáttur sem vert væri að velta fyrir sér þó ekki væri nema vegna gjaldtökunnar af þessum sameiginlegu auðlindum. Það er beinlínis gert ráð fyrir slíkri gjaldtöku í þjóðlendufrv. og hafa verið nokkur skoðanaskipti hér varðandi þann þátt.

Í hugum okkar jafnaðarmanna er mjög mikilvægt að arður af sameiginlegum auðlindum, hvort sem þær eru til lands eða sjávar, sé nýttur í þágu samfélagsins alls. Auðlindagjaldtaka hefur verið tekið upp víða erlendis og kemur að hluta í staðinn fyrir aðra skatta. Ég legg sérstaka áherslu á að slík auðlindagjaldtaka þarf ekki að vera viðbót á aðra skatta. Skattar eru reyndar lágir hér á landi en látum það nú vera. Þetta kæmi frekar í staðinn fyrir aðra skatta og tengdist umhverfismálum mjög mikið. Umhverfisgjaldtaka til að stuðla að umhverfisvernd er sú aðferð sem mest er talað um í opinberri skattlagningu í nágrannalöndunum. Við ættum því að fikra okkur áfram á þessari braut. Við eigum ekki að skoða aðeins einstakar auðlindir. Við jafnaðarmenn höfum stundum verið gagnrýndir fyrir að einblína á auðlindir sjávar og tala um veiðileyfagjald. Það gjald er vitaskuld mjög mikilvægur þáttur þó ber að draga skýrt fram að þetta á auðvitað að skoðast í víðara samhengi.

Margt í þessu frv. verða menn einnig að hafa í huga, ekki einungis umhverfisvernd og skipulagning þeirra mála, við getum tekið vegamál á hálendinu. Öllum þeim sem vilja vita er kunnugt um að vegagerð á þessu stóra svæði landsins, hálendinu, hefur meira og minna verið tilviljunarkennd á undanförnum árum.

Ekki er síst mikilvægt fyrir okkur að öðlast einhverja framtíðarsýn varðandi landið. Í hvaða átt erum við að stefna í sambandi við nýtingu á auðlindum okkar? Á þetta að verða meira ferðamannaland í en það er? Á þetta fyrst og fremst að verða stóriðjuland með álver og olíuhreinsunarstöð í hverjum firði eins og stefna núv. ríkisstjórnar stuðlar að? Eigum við að reyna að byggja á öðrum aðferðum, menntun og hátækni? Vitaskuld er hægt að segja að allt eigi þetta að vera í bland en samt er það ekki svo einfalt. Stjórnvöld og stjórnmálaflokkar á hverjum tíma eiga að hafa ákveðna stefnumörkun á því sviði.

Hins vegar er að mínu mati mikilvægt að hér sé um samræmdar reglur að ræða. Þó þetta frv. bæti mjög úr núverandi stöðu, eru hér ýmis efni sem kannski þyrfti að kveða skýrar á um. Athygli hefur verið vakin á því að í 3. gr. frv. kemur fram að forsrh. hefur nokkuð rúmar heimildir varðandi ýmislegt í málefnum sem honum eru falin. Það þarf að skoða vandlega og hvort menn kjósi að hafa nánari lagafyrirmæli hvað þann þátt varðar. Ég tel þetta eitt af þeim atriðum sem verði skoðað vandlega í þeirri nefnd sem fjallar um frv.

Sú tenging við önnur frumvörp sem hér hefur verið nefnd gerir það brýnna en áður að skoða þessi mál í samhengi. Eins hæstv. umhvrh. upplýsti áðan varðandi þær skipulagstillögur sem unnar hafa verið, yrðu þær staðfestar ef sveitarstjórnarfrv. verður samþykkt. Að öðrum kosti yrði gripið til annarra úrræða. Reyndar er það frv. ekki til umræðu hér en tengist þessu samt sem áður. Við vitum að bæði skipulagstillögurnar og vinnubrögðin eru umdeild. Ég ætla ekkert að leggja mat á það. Við skulum bara segja að það sé umdeilt. Ég held að brýnt sé að líta á þessi mál í samhengi vegna þess, herra forseti, að ég held að það gæti orðið farsælt ef við fyndum sameiginlegan farveg í þessu efni, ekki einungis í sérnefnd. Við gætum unnið málið í sérnefndinni yfir sumarið og hefðum þá sameiginlega umgjörð um þetta stóra mál. Þannig mundum við einangra pólitísk ágreiningsefni sem auðvitað eru í umræðu, við getum nefnt hluti eins og gjaldtöku o.s.frv. Ég á ekki von á því að pólitískt samstaða skapist um það. Ég tel þó mikilvægt að hafa sameiginlega umgjörð um mikilvæga þætti eins og skipulag, vinnubrögð og útfærslu á samt sem áður margvíslegum þáttum sem snerta miðhálendið.

Hér hafa verið borin fram merk frumvörp varðandi þjóðgarða og fleira sem tengist þessum málum. Ég tel mikilvægt, herra forseti, að sem víðtækust sátt náist um þessi mál. Menn ættu ekki að knýja fram vilja sinn í krafti þingstyrks án þess að athuga málið. Vitaskuld er það á valdi ríkisstjórnar hverju sinni hvernig hún hagar því en ég mundi hvetja til að finna því annan farveg og einangra þau pólitísku ágreiningsefni sem auðvitað eru til staðar. Ég held að það sé mjög mikilvægt, herra forseti, að þessi málaflokkur sem hefur ekki fengið almenna umræðu fyrr en núna hin síðari missiri. Þó talað hafi verið fyrir þessum málum á pólitískum vettvangi mjög lengi, þá hefur þetta ekki hlotið almenna athygli og umræðu fyrr en síðari ár. Ég tel nauðsynlegt að sá meðbyr sem umræðunni fylgir sé nýttur. Það væri náttúru Íslands og umhverfi til bóta. Þetta er að sjálfsögðu angi af umræðunni um hver eigi Ísland og hvaða skipulag eigi þar að vera. Í frv. er að mínu mati tekið á mjög mikilvægum þáttum varðandi það, herra forseti. Ég held að ef þessu yrði fundinn sérstakur farvegur innan þings og inn í það tekin álitaefni og stefnumótun úr viðlíka frv., a.m.k. til umræðu og skoðunar, þá væri hægt að ganga frá lagasetningu þó að pólitísk ágreiningsefni væru til staðar. Í meginatriðum væri hægt að ganga frá lagasetningu sem býsna mikil samstaða væri bak við þar sem þetta frv. forsrh. um þjóðlendur er í meginatriðum góð stefnumörkun.