Stjórnarskipunarlög

Fimmtudaginn 05. febrúar 1998, kl. 17:33:26 (3521)

1998-02-05 17:33:26# 122. lþ. 60.3 fundur 238. mál: #A stjórnarskipunarlög# (eignarréttur á náttúruauðæfum og landi) frv., ÁE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 60. fundur

[17:33]

Ágúst Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er eitt atriði sem ég vil gera athugasemdir við. Hv. þm. Ragnar Arnalds fór rangt með þegar hann var að ræða um málflutning okkar jafnaðarmanna varðandi veiðileyfagjald. Ég vil einfaldlega vitna í þá greinargerð sem fylgir tillögu okkar, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir:

,,Ýmsir hagfræðingar telja að fiskveiðiarðurinn muni nema 15--30 milljörðum kr. árlega þegar fyllstu hagkvæmni er náð. Núverandi fiskveiðiarður er mun minni eða innan við 5 milljarðar kr. Að mati flutningsmanna er eðlilegt að í fyrstu verði u.þ.b. 2 milljarðar greiddir í veiðileyfagjald en það þýddi að mikill hagnaður væri enn innan atvinnugreinarinnar. Fæstir talsmenn veiðileyfagjalds hafa talað um að mjög stór hluti fiskveiðiarðsins yrði tekinn út úr greininni.``

Ég vil biðja hv. þm., sem ég veit að er vandur að virðingu sinni í sambandi við málflutning, að fara rétt með. Við höfum lagt til að lagt verði á veiðileyfagjald upp á 2 milljarða við núverandi aðstæður. Við höfum sömuleiðis sagt að þegar hagnaður muni aukast í þessari grein þegar fram líða stundir og fiskstofnar byggjast upp, þá verði hægt að auka þá gjaldtöku. Þetta þarf alveg að liggja ljóst fyrir. Ég veit að hv. þm. þarf ekki að tileinka sér málflutning LÍÚ eða sjálfstæðismanna varðandi þetta efni, að skrumskæla okkar málflutning. Það er algerlega ljóst að málflutningur okkar jafnaðarmanna varðandi veiðileyfagjald er reyndar í anda þess sem hv. þm. talaði um, hófleg gjaldtaka, en svo þegar fram líða stundir verður hægt að auka hana en samt skilja vel eftir innan sjávarútvegsins, þannig að allt tal um að leggja eitthvað í rúst og annað slíkt er fjarri öllum sannleika í þessum málum.